Fölsuð myndverk

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:59:39 (5087)

2004-03-10 13:59:39# 130. lþ. 81.1 fundur 476. mál: #A fölsuð myndverk# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Frú forseti. Mér fannst svar hæstv. dómsmrh. vera ákaflega athyglisvert. Mér fannst þó að þetta væri nokkur einföldun á stöðu málsins. Ég er honum sammála um að það hlýtur a.m.k. að vera álitamál hvort réttlætanlegt sé að taka upp eign manns sem hann hefur greitt fyrir, í þessu tilviki myndverk. Þá spyr ég hæstv. dómsmrh. á móti: Er höfundaréttur þess eðlis að hann njóti ekki verndar stjórnarskrárinnar? Er þar ekki líka um eignarréttindi að ræða?

Ég held þess vegna að það sé ekki hægt með svona einföldum hætti að vísa málinu út af borðinu. Ég held að það hljóti líka að taka tillit til þeirrar málsgreinar laganna sem ég las upp áðan með leyfi forseta. Þar er alveg klárlega verið að verja rétt einstaklings sem hefur skapað listaverk. Hvernig á að bæta honum þá skerðingu sem hann hefur orðið fyrir? Af hverju verður listamaður mikill? Það verður ekki í krafti einstakra verka sem hann hefur framleitt eða búið til. Það er miklu frekar í ljósi samfellunnar sem verk hans mynda og það verður að líta á verk hans öll sem heild sem framlag til þeirrar menningarlegu arfleifðar sem umhverfi hans býr að. Það er verið að rýra álit og orðstír listamannsins þegar búin er til fölsun á verkum hans vegna þess að þá er verið að falsa starfsferil hans. Þá er verið að falsa orðstír hans og sæmd. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti á að bæta það?