Greiðslur til fanga

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:03:33 (5089)

2004-03-10 14:03:33# 130. lþ. 81.2 fundur 574. mál: #A greiðslur til fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í reglugerð um vinnu, nám og dagpeninga til fanga í afplánun segir að fanga beri að stunda vinnu og að forstöðumaður fangelsis ákveði hvaða vinnu fanga er falið að sinna. Fanginn skal vinna alla virka daga að jafnaði frá kl. 8 til kl. 17. Þá segir að fangi skuli eiga kost á því að stunda nám eða starfsþjálfun. Nám getur komið í stað vinnuskyldu. Fyrir hverja unna klukkustund skal greiða 280, 315, 345 eða 365 kr., það síðasta þó aðeins til þeirra sem eru flokksstjórar. Fangi í námi fær 280 kr. fyrir hverja klukkustund en aldrei fleiri en 5 kennslustundir á dag. Þessi mismunur sem er á milli greiðslna fyrir tímakaup skýrist reyndar á því að minna er greitt fyrir kvennastörf en karlastörf í fangelsinu, mun minna fyrir kvennastörfin.

Þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á í lögum um rétt fanga til vinnu eða náms er það ekki þannig að hver sá sem afplánar dóm geti fengið vinnu eða stundað nám. Í slíkum tilvikum fá fangar greidda dagpeninga sem eiga að duga þeim fyrir brýnustu nauðsynjum. Fjárhæð þessara dagpeninga er 580 kr. á dag hvern virkan dag en þeir skerðast um 50% ef fangi brýtur agareglur fangelsis. Hæstu mögulegar greiðslur á viku geta því numið um 2.900 kr., þ.e. rúmum 10 þús. kr. á mánuði. Þessi fjárhæð á að duga til að kaupa allar þær nauðsynjar sem fanginn þarf á að halda. Sumar hverjar verður að kaupa í fangelsinu, enda bannað að koma með þær.

Fangar þurfa auk ýmissar daglegrar nauðsynjavöru að sjá sér sjálfir fyrir handklæðum, fatnaði, nærfatnaði og útifatnaði. Símakostnaður er 9,90 fyrir hverjar 2 mínútur en 15 sekúndur ef hringt er í GSM-síma. Öll afþreyingarvara er á þeirra kostnað. Fangi greiðir hluta af tannlæknakostnaði og það segir sig því sjálft að þær greiðslur sem fanginn fær duga hvergi fyrir brýnustu nauðsynjum. Það liggur því í augum uppi að aðeins þeir fangar sem eiga fjölskyldur sem hafa möguleika á að styðja þá fjárhagslega geta veitt sér nauðsynjar eins og fatnað eða afþreyingarvöru. Aðstandendur fanga bera því verulegan kostnað vegna dvalar þeirra. Í sumum tilvikum er um að ræða að fyrirvinna fjölskyldu afplánar dóm þannig að um tekjuhrun er að ræða sem getur valdið ómældum erfiðleikum. Dagpeningar, 580 kr. á dag, duga hvergi nærri fyrir brýnustu nauðsynjum. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvenær voru reglur um greiðslur dagpeninga til fanga endurskoðaðar síðast?

2. Við hvað er miðað þegar ákvarðanir um greiðslur eru teknar?

3. Fá fangar í gæsluvarðhaldi eða einangrunarvist greidda dagpeninga?