Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:12:47 (5094)

2004-03-10 14:12:47# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost í vetur að kynna mér þjónustu ferðabænda og heimsækja ferðafjós hér á landi. Það var mjög ánægjuleg reynsla, myndarbúskapur sem ferðafólki var kynntur, en það kom mér á óvart hve þröngur stakkur fólki í þessari þjónustu er skorinn við að selja afurðir sínar beint til ferðamanna og þeirra sem vilja kaupa beint af bóndanum. Þeir mega ekki selja osta eða mjólk eða nokkuð það sem þeir eru að framleiða og þótti mér það ótrúlega gamaldags forræðishyggja en hluti af því að veita ferðaþjónustu ætti að vera að selja ferðamönnum framleiðsluna á staðnum.

Ferðabændur vilja geta selt framleiðslu sína, svo sem sitt eigið hangikjöt, mjólkurvörur, mjólk, sultu, kæfu, berjavín og hvaðeina sem þeir eru að framleiða á búi sínu. (Gripið fram í.) Ég hef heimsótt ferðabændur víða um heim og þá hefur alltaf verið hægt að kaupa beint af bóndanum það sem hann framleiðir. Því spyr ég: Hvaða aðstæður eru öðruvísi hér?

Þessi framleiðsla er hluti af matarmenningu hvers lands og fáránlegt að láta tæknilegar hindranir standa í veginum fyrir því að hið sama sé mögulegt hér á landi. Slík sala er mikilvæg fyrir íslenska matarmenningu og hluti af kynningu á henni.

Það er líka mikilvægt að bændur skapi sér sérstöðu þannig að þeir geti selt gæðavöru undir eigin nafni og fengið þannig betra verð fyrir vöru sína. Margir matgæðingar og sælkerar kvarta undan því að það sé ekki hægt að ganga að því vísu að þeir séu að kaupa t.d. gott kjöt hér þó að það sé undir vel kynntum nöfnum, eins og VSOP eða Gourmet, því að bitarnir eru svo misjafnir og það sé m.a. ein af ástæðunum fyrir því að menn velji frekar fuglakjöt eða svínakjöt sem er nokkuð staðlað. Þeir geta aftur á móti verið öruggir ef þeir kaupa beint af bóndanum afurð sem þeir þekkja.

Og hvað t.d. með sauðaost, ost sem er mjög vinsæll og eftirsóttur víða í Evrópu? Hvers vegna er hann ekki búinn til hér? Það gæti drýgt tekjur margra sauðfjárbænda að framleiða hann og selja beint, enda er hann dýr afurð.

Landssamband kúabænda ályktaði á síðasta aðalfundi sínum um þessi sölumál og um að það yrði að ná fram tilslökunum og breytingum á þessum höftum. Ferðaþjónustubændur hafa líka lýst því yfir að þeir vilji fá breytingu þannig að þeir geti selt beint. Það er greinilegt að bændur vilja breytingar á þessu, og ég spyr: Hvað er í veginum? Hvað kemur í veg fyrir að bændur, svo sem ferðaþjónustubændur, geti selt afurðir sínar beint? Og ég spyr hæstv. landbrh. til viðbótar: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir breytingum á þeim reglum sem koma í veg fyrir að menn geti selt afurðir sínar beint til neytenda á búum sínum?