Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:28:55 (5103)

2004-03-10 14:28:55# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég tók eftir því er ég sat hér úti í sal að ég var eiginlega eini þingmaðurinn hér inni sem ekki hafði talað í þessu mikilvæga máli. Það sýnir kannski enn og aftur hve djúpar rætur landbúnaður og bændur eiga á hinu háa Alþingi. (Landbrh.: Formaður Alþýðuflokksins ...) Óvenjumargir hafa tekið hér til máls og allir eru jákvæðir þannig að ég held að hæstv. landbrh. fái mjög gott nesti úr þessari umræðu um vilja þeirra sem hér sitja og hafa tekið til máls.

Auðvitað verðum við að auka frelsi bænda til þess að vinna frekar úr hráefni sínu. Auðvitað eigum við að reyna eins og við getum að koma til móts við þá sem sýna vilja til þess að gera meiri verðmæti úr þeim landbúnaðarafurðum sem þeir framleiða. Við sjáum það í fiskinum að menn komast þar af með tiltölulega lítið húsnæði, úttekið og allt í fínu lagi, til að sinna því að búa til einhverja eina ákveðna vöru sem þykir vinsæl. Af hverju geta íslenskir bændur ekki gert þetta líka í vélageymslu eða einhverju slíku?