Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:30:06 (5104)

2004-03-10 14:30:06# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður og fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að taka á þessum málum. Ég fagna því svo sannarlega. Ég er alveg sannfærð um að þessar hömlur draga íslenskan landbúnað niður. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að flýta því að þessum reglum verði breytt í frjálsræðisátt því að ég er alveg sannfærð um að það mundi styrkja sveitir landsins og viðhalda betur íslenskri matarmenningu.

Mig langar að nefna það að ferðamannafjósið sem ég heimsótti hefur framleitt mikla úrvals gæðamjólk undanfarin tíu ár með mjög lága frumutölu og gerlatölu í mjólkinni. Bændurnir þar leggja metnað sinn í að framleiða mikla gæðavöru en þeir fá aðeins 25 aura á lítrann aukalega fyrir úrvalsmjólkina. Mér finnst þetta alveg ótrúlegt.

Ég held að krafan um þessa miklu gerilsneyðingu sé allt of mikil því að það er orðið þannig að menn geta varla nálgast ógerilsneydda mjólk nokkurs staðar til kaups. Það er staðreynd að sumir þolla illa gerilsneydda mjólk og mjólkurvörur og ferðabændur mega hvorki selja hana á búum sínum né í verslanir. Ég minni á að Íslendingar lifðu á ógerilsneyddri mjólk öldum saman og fjöldi fólks gerir það enn. Ég er alveg viss um að það fyrirkomulag sem við búum við, þessi mikla sterílisering sem við búum við, gengur allt of langt og gerir það að verkum að við þolum verr t.d. mat í útlöndum. Ég held að þetta hafi gengið allt of langt heilsufarslega.

Ég þakka fyrir umræðuna og hvet hæstv. ráðherra til að hraða þessum breytingum í þá veru að færa íslenskan landbúnað að þessu leyti frá fortíð til nútíðar eða framtíðar því að ég tel þetta vera mikið þjóðþrifamál fyrir íslenskan landbúnað og þakka kærlega fyrir.