Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:34:52 (5106)

2004-03-10 14:34:52# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn mín kemur í skemmtilegu framhaldi af því máli sem hér var til umræðu áðan og fékk svo góðar undirtektir sem raun ber vitni.

Orðið aukabúgrein kemur oft fyrir í umræðum um stöðu landbúnaðarins og er gjarnan notað um eitthvað sem bændur geti hallað sér að í þrengingum sínum. Mér leikur því forvitni á að fá frekari upplýsingar um hvað hér sé að ræða og hversu miklar upplýsingar liggi fyrir hjá ráðuneyti landbúnaðarins um þessi störf.

Ég spyr því hæstv. landbrh.:

1. Hvernig eru svokallaðar aukabúgreinar í landbúnaði skilgreindar?

2. Hvaða aukabúgreinar njóta fastra styrkja úr ríkissjóði og um hvaða fjárhæðir er að ræða?

3. Hefur ráðherra í hyggju að móta skýrar reglur um aukabúgreinar og efla stuðning við þær?