Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:42:37 (5109)

2004-03-10 14:42:37# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Þessi umræða er mjög kærkomin og kemur mjög skemmtilega í kjölfarið á umræðunni áðan.

Mjög fjölbreytt starfsemi fer fram í sveitum landsins og miklu fjölbreyttari, held ég, en margir gera sér grein fyrir. Vil ég bara minna á baráttu margra fyrir þrífösun á rafmagni til þess að geta verið með svona aukabúgreinar til hliðar við sitt bú. Eins nefni ég mikilvægi skógræktarinnar sem er hjá sumum aðalbúgrein en hliðarbúgrein hjá mörgum. Hún er ekki bara mikilvæg fyrir bændurna heldur líka fyrir okkur öll vegna kolefnisbindingar. Svo má nefna veiði, bæði lax- og silungsveiði, æðarrækt og handverkið. Ég vil líka minna á þá ágætu styrki sem félmrn. hefur veitt konum á hverju ári til þess að styrkja atvinnumál kvenna í sveitum landsins.