Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:46:06 (5112)

2004-03-10 14:46:06# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Dagný Jónsdóttir:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir fyrirspurn hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur en það er auðvitað svo að hæstv. landbrh. hefur verið afar ötull við að vekja athygli á aukabúgreinum bænda og þar vil ég taka undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur um t.d. skógræktina, lax- og silungsveiði, handverk, rjúpnaveiði o.fl. Það er ýmislegt sem bændur geta byggt á.

Ég vil segja frá lífsreynslu minni þegar ég hóf að ferðast um þau öflugu landbúnaðarhéruð sem eru í mínu kjördæmi, ég hef aðallega ferðast um þau, að það kom mér mjög skemmtilega á óvart hversu blómlegar aukabúgreinar eru hjá bændum. Og ég tel að það sé afar mikilvægt þegar við horfum til framtíðar, og ekki síst með tilliti til þess að nú á að fara að auka þessar svokölluðu grænu greiðslur, að bjóða upp á meiri fjölbreytileika í landbúnaði.