Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:48:22 (5114)

2004-03-10 14:48:22# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:48]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og að sjálfsögðu er það svo að þær aukabúgreinar sem menn hafa rætt um eru náttúrlega ákveðin nýsköpunarverkefni í sveitum landsins. Og ég tel að það sé mjög mikilvægt að hið opinbera komi áfram að því að auka nýsköpun í sveitum landsins því sannarlega veitir ekki af að styrkja þann búsetugrundvöll sem þar þarf að vera. Þar vil ég nefna til sögunnar og spyrja hæstv. ráðherra hvort Framleiðnisjóður landbúnaðarins og m.a. Lánasjóður landbúnaðarins hafi ekki komið í nokkrum mæli að slíkum nýsköpunarverkefnum því það er alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að þróa og efla íslenskan landbúnað. Þar sem ég þekki til er margt ungt fólk að setjast að í sveitum landsins og það er því mjög mikilvægt að við höldum áfram að efla nýsköpun til sveita. Ég spyr því enn og aftur hæstv. ráðherra hvort það sé ekki á stefnuskrá ráðherra að halda áfram að efla nýsköpun til sveita landsins.