Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:54:16 (5117)

2004-03-10 14:54:16# 130. lþ. 81.5 fundur 597. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Hæstv. forseti. Hinn 13. nóvember sl. bar ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um lokaða öryggisdeild, fyrirætlanir varðandi lokaða öryggisdeild, hvar hún yrði staðsett og hvenær mætti vænta þess að slík deild tæki til starfa. Ástæðan var sú að fyrir meira en einu og hálfu ári var hér heilmikil umræða um þörfina fyrir lokaða öryggisdeild fyrir geðsjúka sem væru taldir hættulegir sér og öðrum og var þá fyrst og fremst verið að fjalla um þá sem ekki höfðu hlotið dóm, en væru af fagaðilum engu síður taldir hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Í ræðu minni þá benti ég á að við höfum og búum yfir ákveðinni þekkingu í meðhöndlun geðsjúkra á öryggisdeild á Sogni í Ölfusi þó að þar sé um að ræða ósakhæfa geðsjúka afbrotamenn en þar hafa einnig dvalið sakhæfir geðsjúkir afbrotamenn.

Í svörum hæstv. ráðherra kom fram að hann hefði falið fagfólki á Landspítalanum að skoða þetta mál sérstaklega og þar með að ákveða staðsetningu lokaðrar öryggisdeildar. Á fjárlögum þessa árs eru 25,8 millj. áætlaðar í þetta verkefni og þegar það var kynnt fyrir fjárln. á sínum tíma var talað um að þessi lokaða öryggisdeild yrði í Arnarholti og meira að segja tilgreint í hvað þessar 25,8 millj. sem líta verður á sem byrjunarfjárveitingu ættu að fara. Síðan þá hefur ýmislegt breyst við niðurskurð á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Við blasir lokun á Arnarholti þar sem vilji stjórnenda Landspítala -- háskólasjúkrahúss er að flytja alla þá sem þar eru í önnur búsetuúrræði, og það þarf alls ekki að vera af hinu vonda. Þvert á móti held ég að flestir þeir sem dvelja í Arnarholti í dag væru betur komnir í félagslegum úrræðum. Engu að síður liggur það enn í lausu lofti eða hefur ekki komið fram hjá hæstv. ráðherra eða heilbrrn. hvar staðsetning fyrirhugaðrar lokaðrar öryggisdeildar er og hvenær hún gæti hugsanlega tekið til starfa. Þörfin er til staðar og ástæða þess að ég tek þetta upp aftur er sú að Alþingi ákvað þessa fjárveitingu og hæstv. ráðherra sagði að málið væri í skoðun hjá yfirstjórnendum eða fagfólki Landspítala -- háskólasjúkrahúss til að finna skynsamlegustu lausnina. Í mínum huga er skynsamlegasta lausnin að nýta þá þekkingu sem er á Sogni og þar er hægt að leysa málið með stuttum fyrirvara. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið tekin ákvörðun um staðsetningu lokaðrar öryggisdeildar m.a. fyrir geðveika sakhæfa einstaklinga. Ef svo er, hvar verður hún og hvenær má vænta þess að hún verði opnuð?