Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:06:01 (5123)

2004-03-10 15:06:01# 130. lþ. 81.5 fundur 597. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi tekur nokkuð upp í sig með því að segja að ekkert hafi verið gert. Þessi mál voru tekin upp fyrir tveimur árum eftir að þau höfðu legið í láginni áður. Það var skipuð nefnd þriggja ráðuneyta í málið sem vann ítarlega skýrslu um það. Nefndin skilaði til mín tillögum og það vantar ekkert ákvarðanir í þessu máli. Við höfðum skrifað Landspítalanum á sínum tíma, falið honum að útfæra tillögur nefndarinnar sem voru hreinlega um það að deildin yrði í tengslum við eða hluti af stærstu geðdeild landsins, sem hefur á að skipa flestu fagfólki á þeim forsendum að starfsemin væri þess eðlis. Það er mjög margbrotin starfsemi sem þarna þarf að fara fram. Hún kemur inn á verksvið þriggja ráðuneyta þannig að þetta er í rauninni mjög flókið verkefni. Eigi að síður hefur verið unnið stöðugt að því. Ég vonast til og veit reyndar að tillögur spítalans eru á lokastigi og ég mun vonandi fá þær á mitt borð í þessum mánuði.