Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:08:29 (5124)

2004-03-10 15:08:29# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu ræddi ég um athugasemdir sem gerðar höfðu verið vegna húsnæðis öldrunardeildar Sjúkrahúss Suðurlands af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Um leið var skilað inn verulegum athugasemdum varðandi vanhöld á viðhaldi húsnæðis réttargeðdeildarinnar að Sogni.

Hver sá sem kemur að Sogni og skoðar húsnæði réttargeðdeildarinnar sér að á undanförnum árum hafa ekki farið miklir fjármunir í viðhald. Fjármunir til reksturs hafa verið afar knappir og þó að Sogn sé undir yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur ekki verið neinn afgangur þar til að mæta þeirri þörf sem er fyrir viðhald á húsnæðinu, fyrir utan að sífellt meiri krafa hefur verið á Sogn að taka inn fleiri sjúklinga, ekki bara ósakhæfa geðsjúka heldur einnig sakhæfa geðsjúka sem hafa veikst í fangelsum landsins, m.a. á Litla-Hrauni. Í raun og veru er þörfin fyrir húsnæði á Sogni miklu meiri, það er þörf fyrir mikið stærra húsrými þar en er í dag þó ekki væri til annars en að geta sinnt þeim hundveiku einstaklingum sem eru að afplána dóm á Litla-Hrauni og annars staðar í fangelsum landsins.

Það liggja fyrir teikningar, úrbætur, sem þýða að hægt væri að taka einar sex stofur í gagnið til viðbótar við þær sem fyrir eru en þeim hugmyndum hefur ekki mikið verið sinnt og e.t.v. verða þrengslin minni þegar ekki verður lengur þörf fyrir pláss á Sogni fyrir alvarlega geðsjúka sem ekki hafa hlotið dóm heldur verður slíkt starf fært yfir á Landspítalann. Engu að síður er staðan sú í dag að þarna er yfirfullt. Það þarf að fara í verulegar endurbætur á húsnæðinu. Gefinn var frestur til 1. febrúar til að skila skýrslu um hvernig ætti að standa að þeim endurbótum. Síðan var sá frestur framlengdur til 1. mars og eftir því sem ég best veit er búið að framlengja hann enn frekar, til 1. apríl. Tillögum hefur verið skilað frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem fer með yfirstjórn á Sogni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Á hvern hátt verður brugðist við athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands við húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni? Hvenær má vænta þess að úrbótum verði lokið?

Ég geri það í ljósi þess að það mun koma til kasta hæstv. ráðherra að leysa málið þar sem fjármagnið er ekki til staðar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.