Atvinnuráðgjöf

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:30:28 (5135)

2004-03-10 15:30:28# 130. lþ. 81.7 fundur 697. mál: #A atvinnuráðgjöf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með svar hæstv. iðnrh. varðandi þá fyrirspurn sem fram er komin frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Mér fannst hæstv. ráðherra lesa hér upp úr byggðaáætlun um hvernig hlutirnir ættu að vera en ekki svara þeim spurningum sem bornar voru beint fram þar sem leitað er svara við því hvort hæstv. ráðherra ætli að beita sér fyrir sérstökum stuðningi núna eða einhverjum ákveðnum ráðstöfunum vegna láglaunasvæða.

Vegna þeirra orða sem féllu hér um að við ættum ekki að tala um láglaunasvæði þá verðum við að leyfa okkur að tala um láglaunasvæði ef marktækur munur er á milli landsvæða í launum manna. Við verðum að leyfa okkur að tala um láglaunasvæði og taka ákvörðun um hvort rétt sé að vera með sérstakar aðgerðir til styrktar þeim svæðum sem eru láglaunasvæði í samanburði við önnur svæði.