Atvinnuráðgjöf

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:31:37 (5136)

2004-03-10 15:31:37# 130. lþ. 81.7 fundur 697. mál: #A atvinnuráðgjöf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Eins og hv. þm. hafa eflaust tekið eftir svaraði hæstv. iðnrh. ekki spurningum mínum sem lutu að láglaunasvæðum. Sagði reyndar að hún teldi það ekki þjóna tilgangi. Í því efni er ég henni algjörlega ósammála. Ég tel þvert á móti að ef við ætlum að hafa uppi markvissar aðgerðir til breytinga hvar svo sem þær eru verði aðgerðirnar að taka sérstaklega mið af aðstæðum á þeim svæðum sem við er átt hverju sinni.

Láglaunasvæði búa við meiri erfiðleika en önnur svæði hér á landi, m.a. þá að þar er óvíða til fjármagn til að leggja fram á móti því sem krafist er víðast hvar í stuðningskerfi atvinnuveganna á Íslandi. Ég held að hæstv. iðnrh. ætti að taka þetta til alvarlegrar skoðunar og jafnframt til endurskoðunar þá skoðun sína að ekki sé þörf á sérstökum aðgerðum á láglaunasvæðum.

Hæstv. ráðherra fór mörgum orðum um nýsköpunarmiðstöðina á Akureyri. Hún er án efa ágæt til síns brúks en ég ætla að láta í ljósi þá skoðun mína að það væri mun nær að styðja betur við þær ráðgjafarstöðvar sem eru nær viðkomandi aðilum hverju sinni, þ.e. atvinnuráðgjafana sem búa á svæðunum. Það hefur ekki verið gert eins og ég sagði áðan heldur þvert á móti verið dregið úr stuðningi við þá.