Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:47:39 (5140)

2004-03-10 15:47:39# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég held að óhætt sé að segja að það blasi við öllum að innstreymi erlends fjár er gríðarlegt um þessar mundir. Einungis í janúar var innstreymi erlendra endurlána um 16 milljarðar kr. en til samanburðar má nefna að gert er ráð fyrir að innstreymi vegna Norðuráls og Kárahnjúka verði samanlagt 18--22 milljarðar kr. á ári.

Það kann að hljóma fjarstæðukennt en við þessar aðstæður gæti bati í efnahagslífinu erlendis skapað erfiðleika hér á landi. Það bendir einmitt margt til að það sé bati fram undan á Vesturlöndum. Alls konar væntingavísitölur eru á uppleið. Á síðasta ári voru um 70% allra hagtalna í Bretlandi umfram væntingar. Þar er því góðæri og svipuð teikn koma frá Bandaríkjunum. Þetta getur leitt til þess, eins og hæstv. forsrh. hefur sagt, að vextir hækki erlendis og þá hljóta vextir á erlendum endurlánum með breytilegum vöxtum að hækka sjálfkrafa. Hækki vextir erlendis í það sama og þeir voru árið 2000 þá mundi það leiða til þess að viðskiptahallinn færi upp í 9% af landsframleiðslu. Það væri líklegt til þess að grafa undan genginu. Við það eykst höfuðstóll þeirra sem eru með erlend lán.

Fjölskyldur og fyrirtæki geta þannig lent í tvöföldum hremmingum í formi hærri vaxtabyrði og hærri höfuðstóls lána. Svona þróun gæti leitt til þess að greiðslubyrði fjölskyldna með slík lán mundi á mjög skömmum tíma tvöfaldast. Það er auðvitað alltaf auðvelt að kenna bönkunum um en þeir gera ekki annað en það sem reglurnar leyfa þeim.

En hverjir setja reglurnar og hverjir eiga að breyta þeim í samræmi við breytt efnahagsumhverfi? Fjármálaeftirlitið á að gera það. Ég er ósammála hæstv. forsrh. um að Fjármálaeftirlitið hafi staðið sig vel. Það getur breytt reglum um hlutfall eigin fjár og um áhættuflokkun. En Fjármálaeftirlitið skortir algjörlega frumkvæði, reyndar ekki aðeins í þessu efni heldur birtist sama aðgerðaleysi í þeim hildarleik sem er í gangi varðandi yfirtökur í atvinnulífinu. Ég er ósammála hæstv. forsrh. og segi: Það er ekki annað hægt en að gagnrýna Fjármálaeftirlitið harðlega fyrir frammistöðuna.