Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:51:48 (5142)

2004-03-10 15:51:48# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist áðan stuttlega á skuldir sjávarútvegsins sem ég ætla að gera að umtalsefni.

Samkvæmt tölum sem Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, lagði fram á aðalfundi samtakanna 4. október síðastliðinn var áætlað að heildarskuldir sjávarútvegsins næmu um 190 milljörðum kr. um mitt síðasta ár. Þær höfðu aukist úr 70 milljörðum kr. árið 1988, eða um 120 milljarða kr. á 15 árum. Nokkrir óvissuþættir fylgja þessum útreikningum og hér er að vissu leyti um áætlaðar tölur að ræða. Engu að síður er þetta háalvarleg þróun, frú forseti. Ekki er hægt að segja að tekjur útvegsins hafi aukist nema að hluta í takt við skuldaaukninguna. Heildartekjur voru um 50 milljarðar kr. árið 1988 en aðeins rúmlega helmingi meiri á síðasta ári, eða um 120 milljarðar kr.

Það er athyglisvert að skoða að heildarskuldir eru svipaðar og heildartekjur á hverju ári á öllu tímabilinu frá 1988 til 1995. En þá er eins og flóðgátt bresti og á síðasta ári voru skuldirnar rétt tæpir 200 milljarðar á meðan tekjurnar voru tæpir 120 milljarðar kr.

Af 200 milljarða kr. heildarskuld voru um 140 milljarðar kr. í skuld við íslenskar fjármálastofnanir um mitt síðasta ár. Um 65% af 200 milljarða kr. heildarskuld voru í erlendum gjaldmiðlum og ljóst er að lántökur sjávarútvegsfyrirtækja erlendis hafa aukist mjög á undanförnum mánuðum. Það kemur fram í skýrslu KB-banka sem hér hefur verið til umræðu.

Allnokkur fyrirtæki hafa verið afskráð í Kauphöllinni af ýmsum ástæðum og svokallaðar skuldsettar yfirtökur átt sér stað. Greiningardeild KB-banka telur að nýlegar yfirtökur á fimm sjávarútvegsfyrirtækjum sem horfið hafa af markaði hafi kallað á 25--30 milljarða kr. lántökur.

Hæstv. forseti. Menn hafa kannski aldrei fyrr stundað það af meira kappi að veðsetja óveiddan fiskinn í sjónum, fisk sem enginn veit í raun hvort verður til eða ekki. Hér er verið að taka mikla áhættu með fjöregg þjóðarinnar og ljóst að ekkert má út af bera eigi ekki illa að fara.