Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:54:06 (5143)

2004-03-10 15:54:06# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég tel fulla ástæðu til að staldra við og huga að því hvert stefnir í skuldasöfnun þjóðarinnar og einnig því hvernig henni er háttað innan íslensks samfélags, bæði hvað varðar atvinnulíf og einstaklinga.

Á síðasta ári, sem var þó á margan hátt gjöfult ár, var viðskiptahallinn 45,5 milljarðar kr. En árið á undan var hann nálægt jafnvægi. Erlendar skuldir þjóðarinnar jukust á síðasta ári um 246 milljarða kr. Þær voru í árslok ársins 2003 orðnar 1.210 milljarðar, eða um 150% af vergri landsframleiðslu.

Vert er að hafa í huga, virðulegi forseti, að samtímis höfum við breytt verulega umgjörð íslensks fjármálamarkaðar. Eins og hér hefur réttilega verið bent á er það ekki lengur ríkið sem er ábyrgt fyrir hinum erlendu lántökum og viðskiptahallanum heldur er það einkageirinn og ekki síst fjármálastofnanirnar.

Ég leyfi mér að vísa til ummæla Kristjáns Ragnarssonar, fráfarandi formanns bankaráðs Íslandsbanka, sem greint var frá í Morgunblaðinu 9. mars. Hann gagnrýndi viðvaranir og ábendingar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins á fjölmennum aðalfundi í Íslandsbanka sem haldinn var 8. mars. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

,,Hann sagði að þessar stofnanir ættu ekki að setja fram almennar aðfinnslur um fjármálafyrirtæki, heldur að beina þeim að þeim fjármálafyrirtækjum sem aðfinnslurnar ættu við. Hann sagði enn fremur að ef hafa ætti virkt fjármálaeftirlit þyrfti aðgerðir í stað orða.``

Það held ég að sé málið, frú forseti, að hér þarf aðgerðir en ekki bara orð.