Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 16:05:22 (5148)

2004-03-10 16:05:22# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Erlendar skuldir þjóða heims eru að meðaltali núll og þær þjóðir sem skulda eru að greiða hinum vexti. Íslendingar hafa ætíð skuldað hlutfallslega mikið erlendis. Helgast það af smæð þjóðarinnar og mikilli og nauðsynlegri uppbyggingu en líka af mikilli eyðslugleði og litlum sparnaðarvilja almennings.

Neikvæð ávöxtun mikinn hluta síðustu aldar skapaði þá trú að það borgaði sig að skulda. Enn fremur hefur þjóðin verið laus við alvarlegt atvinnuleysi og önnur efnahagsleg áföll mjög lengi þannig að fólk fer að líta á velsældina sem náttúrulögmál, sem hún ekki er.

Erlendar skuldir myndast þegar halli er á viðskiptum. Hallinn getur verið góðkynja ef hann stafar af arðbærum fjárfestingum sem greiða niður skuldirnar, en því miður er því ekki alltaf að heilsa hér. Stór hluti hallans er vegna einkaneyslu sem tekin eru lán fyrir og endurspeglast í mikilli skuldastöðu heimilanna. Í því sambandi má þó ekki gleyma eignum einstaklinganna í íbúðarhúsnæði sem stendur að baki skuldunum og hafa hækkað miklu meira en skuldirnar. Einnig er eign landsmanna í lífeyrissjóðum um 5 millj. kr. á hvern vinnandi mann að jafnaði svo eigna- og skuldastaða einstaklinga er kannski ekki eins varasöm og sýnist.

En þess ber að gæta að íbúðarhúsnæði er ekki sérlega arðbært í þjóðhagslegum skilningi og það getur því orðið erfitt að standa undir greiðslum af þessum miklu skuldum fyrir einstaklinga.

Frú forseti. Fólk er ekki fætt með skuldir og skuldir heimilanna stafa af einstökum ákvörðunum. Fólk ætti almennt að reyna að átta sig á neikvæðum áhrifum mikillar greiðslubyrði á lífsgæði og hamingju, jákvæðum áhrifum sparnaðar og hófsemi og þess að við erum alla daga að taka ákvarðanir sem minnka skuldir okkar og auka sparnað eða öfugt. Fólk ætti að nota væntanlegan efnahagsbata til að grynnka á skuldum sínum og hafa að leiðarljósi þá góðu tilfinningu að eiga milljón í banka til að grípa til og engin vanskil vítt og breitt. Það eru lífsgæði sem eru meira virði en flottasti jeppi.