Atvinnumál kvenna

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:00:50 (5151)

2004-03-10 18:00:50# 130. lþ. 81.8 fundur 698. mál: #A atvinnumál kvenna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Í nýlegri skýrslu frá Byggðastofnun kemur fram að af úthlutuðum fjármunum þeirra sjóða sem skýrslan nær til runnu aðeins um 20% til atvinnusköpunar kvenna á árabilinu 1997--2002. Handvinna þurfti kyngreindar upplýsingar úr gögnunum og í sumum tilfellum reyndist það ómögulegt, t.d. úr gögnum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sem enn er þó einn öflugasti sjóður sem hægt er að sækja í þótt fjármagn til hans hafi dregist saman. Ein kona var á móti hverjum fjórum körlum í úthlutunarnefndum og engin kona var formaður stjórnar. Konur reka 20% fyrirtækja á landinu og ljóst er að í krafti þeirra liggur mikið afl óvirkjað.

Jafnréttisráðgjafi Norðurlands vestra, sem er eitt af tekjulægstu svæðum landsins, lét vinna skýrslu fyrir nokkrum árum þar sem fram kemur að launakjör kvenna í landbúnaði á svæðinu eru að jafnaði 45% undir framfærslumörkum. Mér er ekki kunnugt um að sambærileg rannsókn hafi verið gerð annars staðar né um stærri markhóp sem þó hlýtur að teljast afar mikilvægt ef fyrirhugað er að fara í markvissar stuðningsaðgerðir. Stöður jafnréttisráðgjafa sem nú eru til á tveim svæðum landsins, Austurlandi og Suðurlandi, eru aðeins tímabundnar, þ.e. til 2004 á Austurlandi en 2005 á Suðurlandi. Framhaldið er óljóst, jafnvel þótt að endamörkum tímabilsins sé að koma í öðru tilfellinu og vitað sé að starfsemi jafnréttisráðgjafa hafi gefist vel.

Stuðningur við atvinnuuppbyggingu kvenna er brýnn og mikilvægt að hann nálgist forsendur kvennanna sjálfra. Þekking á hugmyndum og aðstæðum kvenna er skilyrði þess að vel geti tekist til og þar er margt hægt að bæta. Það hvað konur skipa rýran sess í úthlutunarnefndum er vísbending um skeytingarleysi í því efni. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hvað hefur ráðherra gert til úrbóta í atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni?

2. Hefur ráðherra skoðað sérstaklega stöðuna í atvinnumálum kvenna á láglaunasvæðum?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir sértækum aðgerðum á þessu sviði og ef svo er, hvaða aðgerðum og hvenær má vænta þeirra?