Atvinnumál kvenna

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:11:51 (5156)

2004-03-10 18:11:51# 130. lþ. 81.8 fundur 698. mál: #A atvinnumál kvenna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er alltaf umdeilanlegt hver er starfi sínu vaxinn og getur sitt sýnst hverjum í þeim efnum.

Ég held að hv. þingmenn hafi ekki tekið eftir því sem ég sagði hér áðan, sem sagt að ég hef ákveðið að nýtt verkefni iðn.- og viðskrn. í nýrri framkvæmdaáætlun um aðgerðir í jafnréttismálum sem félmrh. mun leggja fyrir Alþingi á næstunni verði atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni. Byggðastofnun mun hafa forræði í sambandi við það mál. Ég tel að þetta sé það merkileg ákvörðun að það sé allt í lagi að eftir henni verði tekið.

Ég vil benda hv. þingmanni og öðrum hv. þingmönnum frá Samf. sem hér hafa talað á að Samf. á hvorki meira né minna en tvo stjórnarmenn í stjórn Byggðastofnunar og það er langeinfaldast að setja fram skoðanir við þá einstaklinga sem hafa þar mjög mikil völd.

Hvað varðar styrki Byggðastofnunar tók ég eftir því að konur voru þar ekki mjög ofarlega á blaði en þá ber þess að geta líka að konur hafa verið meiri hluti í stjórn Byggðastofnunar þó að svo sé ekki akkúrat núna. Það er ekki þannig að þetta sé karlastjórn að úthluta til karla. Það ríkir mikið jafnræði hvað varðar kynskiptingu í stjórn Byggðastofnunar. (Gripið fram í.) Það eru ekki embættismenn sem úthluta. Það er stjórn sem tekur allar stórar ákvarðanir í Byggðastofnun.

Ég vil engu að síður þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það veitir ekkert af að halda þessari umræðu áfram sem varðar það að auka jafnrétti í landinu. Það er eilíf barátta.