Verðtrygging lána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:22:13 (5160)

2004-03-10 18:22:13# 130. lþ. 81.9 fundur 700. mál: #A verðtrygging lána# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hérna hreyfir hv. fyrirspyrjandi, Jón Gunnarsson, við miklu hagsmunamáli íslenskra heimila. Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda þá eru íslensk heimili hin skuldsettustu í heiminum. Það ætti nú að vera næg ástæða fyrir því að menn mundu hefjast handa við að endurskoða það hvort verðtryggingin eigi almennt rétt á sér. Á meðan bankar og lánastofnanir eru bæði með belti og axlabönd í útlánum sínum þá bætist verðtryggingarþátturinn ofan á skuldarana og kemur til móts við, má segja, það vaxtaokur sem nánast hefur ríkt hérna á Íslandi.

Því er ástæða til að brýna ráðherra til að skipta um kúrs í þessu máli þannig að menn hefji vinnu sem stefni að því að afnema heimildina til verðtryggingar þar sem hún á augljóslega ekki rétt á sér lengur.