Skólagjöld í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:42:30 (5170)

2004-03-10 18:42:30# 130. lþ. 81.11 fundur 209. mál: #A skólagjöld í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft ítrekað það að Háskóla Íslands ber eins og öðrum stofnunum ríkisins að halda sig innan ramma fjárlaga.

Við skulum aðeins rifja hér upp nemendatölur sem Háskóli Íslands hefur miðað sig við.

Fyrir árið 2003 bað hann fyrst um greiðslu fyrir 4.500 nemendur. Við samþykktum það. Síðan bað hann um fyrir 4.950, þ.e. viðbótaraukningu upp á 450 nemendur. Við samþykktum það. Og hver er viðmiðunartalan fyrir þetta fjárlagaár? Hún er 5.250. Þróunin hefur því orðið gríðarlega hröð. Það hefur orðið gríðarleg sprenging í nemendafjölda við Háskóla Íslands. Við höfum mætt þessu.

En það hlýtur einhvern tíma að koma að því að við segjum: Eigum við ekki að staldra við og skoða hvað hér er um að ræða? Hvert ætlum við með Háskóla Íslands? Ætlum við honum eingöngu þetta akademíska nám eða ætlum við líka að hafa þetta eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan, þ.e. að fólk sé í fullu starfi til hliðar við nám í Háskóla Íslands?

Við hv. þm. Jóhann Ársælsson vorum stödd á mjög merkilegu málþingi um hugsanlegan háskóla á Vestfjörðum. Þar kom m.a. í pontu einn Ísfirðingurinn sem sagði sem svo að hann vildi skoða möguleikann á skólagjöldum því að honum þætti það ekki réttlætanlegt að verkamenn landsins væru að borga menntun allra landsmanna sem kysu svo. Þar er hann örugglega m.a. með mastersnám í huga.

Hv. fyrirspyrjandi hefur m.a. komið inn á það að Samf. sé reiðubúin að leggja skólagjöld á nemendur í mastersnámi. Þessum spurningum verðum við að svara vonandi fyrr en síðar því að þetta eru eðlilegar spurningar af hálfu umbjóðenda okkar sem eru kjósendur. Af hverju á sá sem tekur meirapróf, þungaflutningapróf, að borga fullt verð fyrir það en síðan sá sem tekur hugsanlega masterspróf við Háskóla Íslands að fá það fyrir svo til ekki neitt? Hann fær svo hugsanlega þreföld og allt upp í fimmföld laun vörubílstjórans. Er þetta réttlæti?