Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:44:58 (5171)

2004-03-10 18:44:58# 130. lþ. 81.12 fundur 680. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:44]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Krafan um ábyrgðarmenn á námslán samræmist ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Vitað er um mörg dæmi þess að ungt og efnilegt fólk hafi orðið að hverfa frá fyrirætlunum sínum um frekara nám vegna þess að það hefur ekki getað framvísað ábyrgðarmönnum sem lánasjóðurinn tekur gilda. Það gefur augaleið að aðgengi námsmanna að ábyrgðarmanni á námslán er mjög misjafnt. Margir eiga einfaldlega ekki kost á því að fá til uppáskrifta á námslán sín einstaklinga sem hafa fjárhagslega burði til að standa undir slíkum ábyrgðum. Til eru sorgleg dæmi þar sem aldrað fólk eða foreldrar námsmanna og aðstandendur verða fyrir alvarlegum eignamissi vegna slíkra uppáskrifta.

Vegna þessa og vegna þess að krafan um ábyrgðarmenn á námslán brýtur gegn jafnrétti til náms, brýtur hún einnig gegn því meginhlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir öllum fjárhagslegt aðgengi að námi, óháð efnalegri stöðu viðkomandi eða efnalegri stöðu þeirra sem að honum standa. Í ljósi þess er mikilvægt að taka upp lögin um lánasjóðinn líkt og við nokkrir þingmenn Samf. höfum nýlega lagt til í frv. til laga þar sem við leggjum m.a. til að þær breytingar verði gerðar, með leyfi forseta:

,,Námsmaður, sem fær lán úr sjóðnum, skal undirrita skuldabréf við lántöku og ber hann ábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess. Ekki skal krafist ábyrgðarmanns á námslán.``

Til viðbótar við þessa breytingu leggjum við einnig til að 30% af lánum breytist í styrk eftir námslok, hafi eðlileg námsframvinda átt sér stað, og að námslán verði greidd fram jafnóðum. En það er annað mál og verður rætt hér síðar.

Hvað varðar ábyrgðarmenn á námslán leggjum við það til að hver námsmaður eigi sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu síns láns og á að undirrita skuldabréf þess efnis. Stjórn sjóðsins ákveður síðan hvaða skilyrði lántakandi þarf að uppfylla til að hann fái lán frá sjóðnum.

Með frv. eru settar fram grundvallarbreytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem við leggjum til að krafan um ábyrgðarmenn verði felld brott úr lögunum þar sem hún samræmist ekki áðurnefndum ákvæðum um jafnrétti til náms óháð efnahag og efnalegri stöðu námsmanns eða aðstandanda hans. Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. menntmrh.:

Er í undirbúningi breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem fæli í sér afnám ákvæða um ábyrgðarmenn námslána? Ef svo er ekki, telur ráðherra slíka breytingu koma til greina og þá hvenær?