Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:47:47 (5172)

2004-03-10 18:47:47# 130. lþ. 81.12 fundur 680. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:47]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er markmið ríkisstjórnarinnar að lánasjóðurinn, Lánasjóður íslenskra námsmanna, gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Það er grundvallarhlutverk hans. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2003 verður hugað að því að endurskoða lögin um sjóðinn. Sú vinna er ekki hafin og ljóst er að huga þarf að mörgu í því sambandi og eitt af þeim atriðum sem við þurfum að athuga vel þegar kemur að þessari endurskoðun er einmitt ákvæði laganna um ábyrgðarmenn námslána.

Burt séð frá kostum og göllum er ljóst að ákvæðið um ábyrgðarmenn námslána hefur mikla og víðtæka þýðingu fyrir námslánakerfið. Bæði með tilliti til útlána og endurgreiðslna hefur krafan um ábyrgðarmenn haft í för með sér ákveðið aðhald. Óbreytt ábyrgðarmannakerfi torveldar alltaf einhverjum að fá notið þeirrar aðstoðar sem er í boði hjá LÍN og í einstaka tilvikum kann það að útiloka menn frá því að fá námslán. Þetta er þó erfitt að sannreyna þar sem ákvörðun um töku námsláns er oft byggð á mörgum öðrum forsendum.

Óhjákvæmilegt er í umræðum um ábyrgðarmenn á námslánum að hafa í huga að núgildandi löggjöf byggir á því að námsaðstoð skuli vera í formi lána en ekki styrkja og því eru ákvæði í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna um ábyrgðarmenn.

Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram um með hvaða hætti megi bregðast við þeim vandamálum sem ábyrgðarmannakerfið vissulega skapar og í því sambandi hefur t.d. verið bent á að í stað þess að afnema ákvæði í lögum um ábyrgðarmenn, mætti stofna ábyrgðardeild við sjóðinn sem væntanlegir lántakar gætu leitað til við vissar aðstæður. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem hafa komið upp.

Síðan kemur einnig til greina að bankar komi inn með sjálfskuldarábyrgð í stað ábyrgðarmannanna sjálfra. Þetta eru allt hugmyndir sem hafa verið uppi á borðum og menn eru að hugsa. Á meðan hluti námsaðstoðar er í formi lána þarf alltaf einhver að axla hina fjárhagslegu ábyrgð.

Enn önnur hlið á ábyrgðarmannakerfinu sem kannski er rétt að vekja athygli á er sú að á hverju ári hafa leitað til sjóðsins einstaklingar sem eru í gjaldþrotameðferð eða teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur miðað við það fjármagnskerfi sem við búum við. Þessir einstaklingar geta fengið námslán með tilstyrk ábyrgðarmanna. Þar koma ábyrgðarmennirnir til skjalanna og gera þeim kleift að fá námslán hjá LÍN. Með afnámi þessa ábyrgðarmannakerfis væri líklega torveldara fyrir þessa ágætu einstaklinga að fá námslán.

Útistandandi lán sjóðsins eru um 50--60 milljarðar kr. og því er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða sem tryggja þarf með ákveðnum hætti að skili sér til baka til sjóðsins. Við vitum að ríkið greiðir niður lánin um 50%, eða framlag ríkisins til lánasjóðsins er 50% og síðan eru endurgreiðslur námslána hinn helmingurinn.

Ég vil enn og aftur ítreka það, virðulegi forseti, að það er skoðun mín að ákvæðin um ábyrgðarmenn námslána koma að sjálfsögðu til endurskoðunar líkt og heildarlögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna og að sjálfsögðu verða þau ein af þeim ákvæðum sem við lítum til. Það eru eins og ég hef bent á bæði kostir og gallar við að hafa þessi ákvæði en þetta verður eitt af þeim hlutverkum sem sú nefnd fær sem verður skipuð varðandi endurskoðun á lögunum sem er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.