Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:54:06 (5175)

2004-03-10 18:54:06# 130. lþ. 81.12 fundur 680. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að hæstv. ráðherra menntamála skuli ekki útiloka þá breytingu á lögum um lánasjóðinn að koma megi til einhverra breytinga þannig að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið með einhverjum hætti og aðrar leiðir farnar og fundnar til þess að tryggja lánin. Mín skoðun er, herra forseti, eins og við leggjum til, samfylkingarmenn, í því frv. sem ég ræddi um áðan þar sem við segjum, með leyfi forseta, aftur:

,,Námsmaður, sem fær lán úr sjóðnum, skal undirrita skuldabréf við lántöku og ber hann ábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess. Ekki skal krafist ábyrgðarmanns á námslán.``

Ég held að það sé nægjanleg ábyrgð á láni hjá fólki almennt sem þarna er lagt til. Fólk sem tekur námslán til að framfleyta sér í gegnum hvort heldur er verknám, sérskólanám eða háskólanám, er svona nokkuð ábyrgt fyrir því að það hefur aðgang að bærilegri vinnu, ágætum launum og sjái sér allan hag í því að standa skil á lánum sínum til að lenda ekki í vanskilum og gjaldþroti. Þannig að eins og háttar í dag er það skoðun mín að sú ábyrgð sé fullkomlega nægjanleg.

En það virðist vera athyglisverður meiningarmunur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli þar sem sex þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt til þá breytingu á lögum um lánasjóðinn að ábyrgðarmannakerfið verði afnumið og taka þar með undir eina af þeim meginbreytingum sem við í Samf. leggjum til að verði gerð á sjóðnum. Vona ég að hæstv. ráðherra og Sjálfstfl. fylgi þar eftir og skoði það með opnum huga í þeim breytingum sem ákveðnar voru í stjórnarsáttmála og hæstv. ráðherra nefndi áðan og að í þeirri endurskoðun komist menn að þeirri niðurstöðu að vænlegast sé að afnema þetta ákvæði til að tryggja fullkomlega og frekar jafnrétti til náms.