Svæðisútvarp

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:01:45 (5178)

2004-03-10 19:01:45# 130. lþ. 81.13 fundur 668. mál: #A svæðisútvarp# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið starfrækir landshlutastöðvar á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi. Það sendir út svæðisbundnar fréttir og fréttatengt efni á dreifikerfi Rásar 2 í viðkomandi landshlutum þriðjudaga til föstudaga kl. 17.30--18.00 en á Akureyri eru mánudagsútsendingar einnig til staðar. Auk þess annast landshlutastöðvarnar fréttaöflun fyrir fréttasvið Ríkisútvarpsins, bæði útvarp og sjónvarp, taka að staðaldri þátt í dægurmálaútvarpi Rásar 2 og framleiða ýmsa dagskrárþætti til flutnings á báðum útvarpsrásum Ríkisútvarpsins. Hjá landshlutastöðvunum fjórum starfa samanlagt 17 manns við fréttaöflun, dagskrárgerð, tæknistörf og við auglýsingasölu. Heildarkostnaður við rekstur þeirra nam um 100 millj. kr. árið 2003.

Þá hefur Ríkisútvarpið samið við sjálfstætt starfandi fjölmiðlamann í Borgarnesi um fréttaöflun fyrir útvarp og sjónvarp á Vesturlandi og er það efni flutt í fréttatímum á aðalrásum útvarps og sjónvarps til landsins alls en þar er ekki um að ræða svæðisbundnar útsendingar. Í Borgarnesi er einnig unnið að dagskrárgerð fyrir Rás 1.

Ákvörðun um starfrækslu svæðisútvarps á Suðurnesjum er innri ákvörðun Ríkisútvarpsins. Ráðherra hefur ekki afskipti af slíkum ákvörðunum. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað hjá RÚV telur stofnunin sig ekki hafa tök á að hefja starfsemi landshlutastöðvar á Suðurnesjum að svo stöddu. Fréttastofur útvarps og sjónvarps í Reykjavík annast hins vegar fréttaþjónustu frá svæðinu.