Svæðisútvarp

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:03:33 (5179)

2004-03-10 19:03:33# 130. lþ. 81.13 fundur 668. mál: #A svæðisútvarp# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Þar hreyfir hv. fyrirspyrjandi Jón Gunnarsson við athyglisverðu máli og skemmtilegu. Svæðisútvörpin og rekstur þeirra hefur verið skemmtileg nýbreytni og mjög þörf inn á þau svæði þar sem þau hafa verið rekin af hvað mestum krafti, aflvaki ýmiss konar og að þjappa samfélögunum betur saman. Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda væri mjög brýnt, t.d. eins og ef Suðurk. er tekið þar sem 2--3, eftir atvikum 4, býsna ólík og að mörgu leyti sundurlaus svæði eru sett saman í eitt kjördæmi, að eitt svæðisútvarp væri starfrækt yfir allt svæðið. Í haust tók til starfa svæðisútvarp á Suðurlandi sem nær bara yfir gamla Suðurlandskjördæmið, prýðilega rekið og skemmtilegt útvarp sem hefur strax skipt máli og því er mjög vert að beina þeim orðum til yfirmanna Ríkisútvarpsins að skoða þessa hugmynd mjög gaumgæfilega og reyna að hrinda henni í framkvæmd.