Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:33:01 (5189)

2004-03-11 10:33:01# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar meint samráð olíufélaganna kom upp á borð samkeppnisyfirvalda í fyrra brá mörgum við þegar í ljós kom verulegur ágalli á viðurlagakafla samkeppnislaga sem m.a. gæti leitt til þess að brot einstaklinga fyrndust ef ekkert væri að gert. Ekki var skýrt á hvaða stigi eða með hvaða hætti lögreglurannsókn ætti að hefjast en hún rýfur fyrningu á meðan rannsókn Samkeppnisstofnunar gerir það ekki. Með óvissu um hlutverk og aðkomu lögreglu annars vegar og hins vegar Samkeppnisstofnunar að svo alvarlegum brotum er hagsmunum almennings stefnt í voða, að ekki sé minnst á þá einstaklinga, seka eða saklausa, sem brotunum kunna að tengjast. Það var því þarft og mikilvægt þegar hæstv. viðskrh. ákvað í september sl. að skipa nefnd til að fara ofan í þetta mál. Eðli máls samkvæmt er nauðsynlegt að sú vinna gangi hratt og örugglega.

Í nefndina voru skipaðir þrír lögfræðingar, fulltrúar viðskrn. og lagadeildar Háskóla Íslands ásamt fulltrúa dómsmrn. Samkvæmt heimildum mínum skilaði nefndin af sér einróma niðurstöðu í lok janúar, fullbúnu frv. þar sem lagt er til að farin verði sú leið að ríkislögreglustjóri rannsaki brot einstaklinga en Samkeppnisstofnun lögaðila í slíkum málum.

Nú virðist sem málið hafi verið stoppað af hæstv. dómsmrh. sem þó átti fulltrúa sinn í nefndinni. Það verður að teljast hreint með ólíkindum, að fela fulltrúa sínum vinnu í nefnd en gangast síðan ekki við tillögum nefndarinnar þegar þær liggja fyrir. Hér er um alvarlegt mál að ræða og hæstv. viðskrh. hefur þá skyldu gagnvart Alþingi að svara því hver staða málsins sé.

Ég hlýt að krefja hana svara og kalla hér eftir þeim. Ætlar hæstv. ráðherra að standa fast á sínu og greiða úr þessu máli eða ætlar hún að láta úrtölutóna hæstv. dómsmrh. ráða för? Slík niðurstaða væri alvarleg. Hæstv. ráðherra verður að vera þeim vanda vaxin að greiða úr þessum málum sem fyrst og svo virðist sem henni sé ekkert að vanbúnaði að láta kné fylgja kviði og leggja frv. nefndarinnar fyrir þingið. Eða hvað er því til fyrirstöðu?