Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:36:41 (5191)

2004-03-11 10:36:41# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:36]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum með svar hæstv. viðskrh. en eins og þjóðin man mjög vel frá sl. sumri myndaðist gríðarleg réttaróvissa um framkvæmd samkeppnismála hér á landi. Tvær lykilstofnanir í þjóðfélaginu, Samkeppnisstofnun og ríkislögreglustjóri, rifust allverulega um hvernig framkvæma ætti rannsókn á þessum alvarlegu glæpum gegn íslenskum almenningi. Það sem fékkst aðallega upp úr þeirri deilu var að stjórnmálamenn þurftu að taka af skarið um hvað gera átti. Fyrir utan ábyrg viðbrögð Samf. með fullunnu þingmáli strax í upphafi haustþings setti hæstv. viðskrh., yfirmaður samkeppnismála hér á landi, starfshóp á fót sem komst að ákveðinni niðurstöðu sem er reyndar keimlík tillögu Samf.

Nú hefur niðurstöðu þessa starfshóps verið harðlega mótmælt af öðrum meðlimi þessarar sömu ríkisstjórnar, sjálfum dómsmrh. Það er alveg með ólíkindum að þessi sama ríkisstjórn geti ekki komið sér saman um jafnviðamikið grundvallaratriði og framkvæmd samkeppnismála er. Því sem vinstri höndin gerir er hægri höndin ósammála.

Þetta mál sýnir í hnotskurn áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á samkeppnismálum þegar á reynir. Þetta sást vel þegar Samf. bar upp tillögu um hógværa hækkun á fjárframlögum til Samkeppnisstofnunar rétt fyrir jólin en þar felldu allir þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. tillöguna einróma. Og svo ég rifji það upp fyrir þingheimi var einungis um að ræða 30 millj. kr. hækkun sem er nánast helmingi minna en bókin um Stjórnarráðið kostar ríkissjóð. Það er því ljóst að áhugi framsóknarmanna á samkeppnismálum er enginn, bara orðin tóm því að þegar á hólminn er komið eru þeir einungis í sínu liði. Það er ekki tilviljun að rannsókn á samkeppnisbrotum tryggingafélaganna standi í heil sex ár undir stjórn framsóknarmanna á samkeppnismálum þjóðarinnar.

Ég vil því taka undir áhyggjur hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur yfir þeirri óþolandi réttaróvissu sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. býður íslenskum fjölskyldum og fyrirtækjum upp á. Og svör hæstv. viðskrh. leysa ekki úr þeirri réttaróvissu.