Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:40:22 (5193)

2004-03-11 10:40:22# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Ásgeir Friðgeirsson:

Herra forseti. Viðskipti hafa verið í brennidepli opinberrar umræðu hér á landi undanfarin missiri. Mest hefur borið á rannsóknum þeim sem hér um ræðir, ríkislögreglustjóra og Samkeppnisstofnunar, á einstaka málum. Það er alkunna hversu langan tíma rannsóknir þessar hafa tekið og þegar ofan í kaupið bætast óljós mörk og valdsvið stofnana leiðir af sjálfu sér að mikil óvissa ríkir í viðskiptalífi hvað þetta varðar. Því miður hefur þetta ástand varað lengi.

Núverandi ástand er illa viðunandi vegna þess hve lengi fyrirtæki þurfa að búa við grun og tortryggni. Það er óviðunandi að tefja í átta mánuði. Átta mánuðir eru kannski ekki langur tími í stjórnsýslunni en í íslensku viðskiptalífi eru átta mánuðir mjög langur tími, herra forseti.

Það er á ábyrgð stjórnvalda að skapa stöðugt og skilmerkilegt starfsumhverfi. Því ber að hraða niðurstöðum þessa máls og fá fram skýrar reglur.