2004-03-11 10:48:54# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að fjalla hér á Alþingi um stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana á árunum 2000--2002. Ég vil geta þess að hv. 1. þm. Suðurk. bað um umræðu um skýrsluna en samkomulag varð um að hafa umræðuna með þeim hætti sem forseti tilgreindi. Skýrslan er unnin að beiðni heilbr.- og trmrn. sem fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún legði mat á starfsmannahald, framkvæmd kjarasamninga og skipulag nokkurra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Launakostnaður sjúkrastofnana hefur aukist umtalsvert umfram áætlanir á síðustu árum og er það meginorsök þess að kostnaður við rekstur þeirra stofnana hefur farið fram úr áætlunum. Í þessum fyrsta áfanga var tekið til skoðunar starfsmannahald og framkvæmd kjarasamninga. Í því felst fyrst og fremst skoðun á áætluðum og raunverulegum launakostnaði hjá einstökum stofnunum. Skýrslan leitast við að svara hvaða svigrúm stofnanirnar höfðu til launahækkana til einstakra hópa og hverjar launahækkanirnar urðu svo í raun. Úttektin náði til starfsmannahalds og launagreiðslna áranna 2000--2002, eins og áður sagði, og voru sex heilbrigðisstofnanir teknar til skoðunar, Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunin Selfossi.

Í skýrslunni má sjá að launakostnaður þessara sex heilbrigðisstofnana jókst um rúmlega 30% sem er svipuð hækkun og hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Kostnaðarmat kjarasamninga gerir ráð fyrir 18--21% hækkun þannig að ljóst er að launakostnaður stofnana hefur aukist umfram kostnaðarmat um 7,5--10%. Ástæður fyrir þessu misræmi má ýmist rekja til launaskriðs eða breytinga á vinnuafli. Ljóst er þó að launaþróun þessara sex stofnana er sambærileg við það sem gerist á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Þá er um umtalsverðan mismun að ræða hjá einstökum stofnunum. Mesta hækkunin var tæp 39% en sú stofnun sem var með minnstu hækkunina var með tæpa 25% hækkun.

Í umfjöllun síðustu daga um skýrsluna hafa launahækkanir til lækna verið fyrirferðarmestar. Þar hefur verið bent á mikinn launamun lækna á LSH og lækna á sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Í því sambandi vil ég vekja athygli á að stór hluti lækna á höfuðborgarsvæðinu er jafnframt með sjálfstæðar lækningastofur en þær tekjur eru ekki meðtaldar.

Í skýrslunni er einnig vakin athygli á að launatengd gjöld hafa hækkað umtalsvert meira en útgreidd laun. Í síðustu kjarasamningum var samið um verulega hækkun greiðslna í séreignarlífeyrissjóði sem tóku síðan gildi í áföngum. Í kostnaðarmati fjmrn. á kjarasamningum hefur ekki verið tekið tillit til þessa kostnaðar. Fyrir stofnanir heilbr.- og trmrn. lætur nærri að hér sé um 400--500 millj. kr. útgjaldaauka að ræða sem stjórnendur stofnana fá engu um ráðið.

Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta gerð kjarasamninga hjá ríkinu. Einn liður í þeim umbótum var að færa umsjón og ábyrgð með kjarasamningum til stjórnenda ríkisstofnana og dreifa valdi þar með betur en áður. Í stað aðlögunarsamninga tóku stofnanasamningar við einstök stéttarfélög við í kjarasamningum ríkisins 2001. Stofnanasamningunum var m.a. ætlað að stuðla að skilvirkara launakerfi sem átti að taka mið af þörfum og verkefnum stofnana. Ekki var gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna stofnanasamninga, heldur er gert ráð fyrir að standa verði undir slíkum útgjöldum með hagræðingu í rekstri. Á litlum stofnunum þar sem er um mjög fáa sérmenntaða starfsmenn að ræða getur verið erfitt að ná fram hagræðingu til að standa undir auknum útgjöldum vegna stofnanasamninga.

Niðurstöður skýrslnanna gefa sterklega til kynna að stofnanir hafi verið vanbúnar til að axla þá ábyrgð sem þeim var falin með að ábyrgð á framkvæmd kjarasamninga væri í ríkara mæli færð til þeirra. Ástæður þess eru ugglaust margvíslegar og má benda á að takmörkuðu framboði á heilbrigðisstarfsmönnum eins og læknum og hjúkrunarfræðingum í dreifbýlli hlutum landsins megi að einhverju leyti um kenna. Sömuleiðis má benda á samræmdan þrýsting starfsstétta þar sem starfsmenn stéttarfélaganna, sitjandi í samstarfsnefndum, leggja áherslu á gerð stofnanasamnings sem framhaldskjarasamnings þar sem farið er fram á miklar hækkanir umfram kjarasamninga og kostnaðarmat hans.

Ríkisendurskoðun telur að miðlægur stuðningur fagráðuneytisins sé mikilvægur, það sé fagráðuneytisins að aðstoða við túlkun óljósra atriða í kjarasamningum og tryggja aðgang að upplýsingum um launamál. Jafnframt er bent á nauðsyn þess að gera stjórnendur heilbrigðisstofnana betur hæfa til að takast á við þessa ábyrgð með auknu námskeiðahaldi og fræðslu.

Það er ekki svo að ráðuneytið komi ekki að kjaramálum. Starfsmenn ráðuneytisins eru í stöðugu sambandi við framkvæmdastjóra stofnana um fjárhags- og rekstrarstöðu. Unnið hefur verið að söfnun upplýsinga úr launabókhaldi þeirra stofnana sem eru utan launavinnslu fjmrn. og er stefnt að því að því verki ljúki í næsta mánuði. Þar með skapast möguleiki á reglulegum samanburði á launum og launaþróun milli stofnana. Þess ber að geta að í framhaldi af útkomu skýrslunnar mun ráðuneytið fara sérstaklega yfir framkvæmd kjarasamninga á þeim stofnunum sem Ríkisendurskoðun gerir helst athugasemd við.

Herra forseti. Það má segja að allt frá 1997 hafi stöðugt verið í gangi samningar við hin ýmsu stéttarfélög um kaup og kjör innan heilbrigðisstofnana sem kostað hefur ómælda vinnu fyrir stjórnendur þeirra og tilheyrandi útgjaldaauka sem oftast hefur ekki rúmast innan fjárlagaramma stofnananna. Við þessar aðstæður hlýtur sú spurning að vakna hvort rétt hafi verið staðið að því að færa umsjón og ábyrgð með kjarasamningum til stjórnenda ríkisstofnana og hvort vald hafi í raun og veru færst til stjórnenda eins og áformað var. Í stað þess að dreifa valdi til stjórnenda hafi svigrúmið í raun ekki aukist, heldur hafi kjarasamningagerð við stéttarfélög framlengst inn í stofnanirnar.

Í annan stað má spyrja hvort frágangur miðlægra kjarasamninga ríkisins sé ekki með öllu ófullnægjandi fyrst þeir leiða til áframhaldandi samningaviðræðna við stéttarfélögin um kaup og kjör í stofnunum ríkisins þegar kjarasamningur á að vera í gildi. Ég hef áður lýst því yfir í ræðu og riti að rétt sé að skoða vel framkvæmd kjarasamninga og meta hvort kerfið þjónar þeim tilgangi sem lagt var upp með í byrjun. Þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar rennir enn frekari stoðum undir þá skoðun mína að launamál stofnana þurfi frekari athugunar við.