2004-03-11 11:21:17# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), DrH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Laun eru stærsti kostnaðarliður stofnana, oft um 70--80% af rekstrarkostnaði. Í skýrslunni kemur fram að launakostnaður þeirra stofnana sem hér er til skoðunar óx um 32% á árunum 2000--2002. Það er um það bil tvöfalt meiri hækkun en launavísitala sama tímabils segir til um. Í skýrslunni kemur fram að þrír meginþættir skýri þessa þróun, þ.e. miklar umsamdar launahækkanir, launaskrið og aukið vinnuafl.

Það þarf mjög styrka stjórn við gerð stofnanasamninga, sérstaklega hjá minni stofnunum. Smærri stofnanir hafa oft ekki sama aðgang að upplýsingum og hinar stærri og e.t.v. eru kjarasamningar allt of flóknir. Ábyrgðin þarf að vera skýr. Rammafjárlög eru meginskilyrði þess að kostnaði við rekstur ríkisins sé haldið í skefjum. Með nýju launakerfi átti að færa vald launaákvarðana frá miðlægum aðila til einstakra stofnana. Þannig átti að taka mið af aðstæðum á hverjum stað, hagnaði starfsmanna, frammistöðu þeirra og eðli starfa við ákvörðun launa. Stofnanasamningar er ekki staðlaðir og eru því mismunandi á milli stofnana.

Kerfið átti í upphafi að stuðla að festu og aðhaldssemi í launahækkunum og átti að hafa svipuð kostnaðaráhrif og samningar á vinnumarkaði. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir því að hjá sumum stofnunum hafa laun einstakra hópa hækkað meira en kjarasamningar segja til um. Oft kann það að eiga sínar skýringar og í dag hefur verið rætt um laun lækna á landsbyggðinni. Skýringuna á þeim má kannski að hluta til finna í meiri vaktskyldu á þeim og meira vinnuálagi heldur en annars staðar. Ég tel að það verði að taka mjög fast á þessum málum til að við missum þau ekki úr böndunum.