2004-03-11 11:28:10# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem farið hefur fram um þetta mikilsverða mál. Ég vil fyrst taka fram, varðandi kerfið sem við búum við, að fjmrn. sér um miðlæga kjarasamninga. Það er reglan að bæta þá. Hins vegar er aftur reglan um að svokallaða stofnanasamninga eða aðlögunarsamninga eigi að bæta með hagræðingu í kerfinu. Það er víða erfiðleikum bundið vegna aðstæðna á stofnunum.

Spurt var um hver stefnan væri og hvað ég mundi gera í framhaldi af skýrslunni. Ég tel að skýrslan sé ábending til okkar í heilbrrn. Ég tala fyrir því að við þurfum að hafa meiri afskipti eða veita meiri leiðsögn í stofnanasamningum. Til þess þurfum við að efla launaskrifstofu okkar. Við munum leita leiða til þess. Ég tel einnig áríðandi að meira jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar á heilbrigðisstarfsfólki. Úti á landi er víða mjög erfitt að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa, sérstaklega lækna og hjúkrunarfræðinga. Þar er skortur í þeim starfsstéttum og kanna þarf hvaða leiðir eru færar í því efni.

Ég vil taka undir það sem fram hefur komið, að það er ekki gott að alhæfa í þessu efni varðandi stofnanir á landsbyggðinni. Sumar stofnanir eru litlar. Þar er kannski einn læknir sem er á bakvakt. Þeir læknar hafa mjög há laun og eðli málsins samkvæmt eiga þeir það skilið.