Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 11:38:59 (5210)

2004-03-11 11:38:59# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:38]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög við hina 3. umr. enda fór fram ítarleg umræða um málið við 2. umr. í fyrradag. Um margt var hún býsna gagnmerk og upplýsandi, og málefnaleg í alla staði. Rétt aðeins til að bregðast við vangaveltum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan vil ég taka undir að það er rétt hjá okkur Íslendingum að leggja í það vinnu á næstu tveimur árum að undirbyggja og gaumgæfa með hvaða hætti við gætum látið ákvæði samningsins taka gildi, þ.e. um opnun vinnumarkaðarins, hvort og þá með hvaða hætti. Hv. þm. vakti sérstaka athygli, með réttu, á tilteknum þjóðum, í því sambandi Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, og þá er vert að vekja athygli á því að samningurinn gefur auðvitað tækifæri á að ,,mismuna ríkjum``. Það er með öðrum orðum hægt að opna vinnumarkaðinn fyrir tilteknum ríkjum Evrópusambandsins hins nýja en öðrum ekki. Sú leið er vafalaust mjög vandmeðfarin en eftir sem áður veitir samningurinn og samkomulag EES-ríkjanna við Evrópusambandið tök og tækifæri á því máli.

Í þessu samhengi er ekkert undan því að líta að það hljóta að vera hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins veruleg vonbrigði að velflest ríki Evrópusambandsins sem fyrir eru og einnig ríki sem standa að EES-samningnum skuli hafa eitt af öðru tekið þá ákvörðun á síðari stigum máls að nýta sér ákvæðið til frestunar á opnun vinnumarkaðarins. Auðvitað er aðild þeirra ekki fullgild fyrr en öll ákvæði samningsins taka gildi. Það gefur augaleið. Nú veltum við ekki stórum steinum í þessu samhengi en eftir sem áður tel ég mikilvægt að við vinnum heimavinnu okkar í þessum efnum sem öðrum.

Ég tiltók í umræðu í fyrradag þann vinkil málsins sem er Norðurlöndin. Það má auðvitað skoða hann frá ýmsum sjónarhornum. Ég vakti sérstaka athygli á því að ef svo færi að Norðurlöndin yrðu ein heild sem aðildarríki Evrópusambandsins hefðu þau samanlagt meira atkvæðavægi á Evrópusambandsþinginu en hið stóra ríki Þýskaland. Saman stæðu þau afskaplega sterkt að vígi ef þau væru samstiga í þessum efnum. Hitt er svo ekkert launungarmál, og það vita auðvitað allir sem eru í einhverjum minnstu samskiptum við vini okkar á Norðurlöndum og síðan aftur í samskiptum við Mið-Evrópu, við Brussel og Strassborg þar sem hinar stóru ákvarðanir eru teknar, að sú staða máls þegar þrjú ríki eru innan sambandsins og tvö utan veldur auðvitað verulegum vandkvæðum. Allir hafa orðið varir við það að þau þrjú ríki sem eru innan sambandsins hafa í vaxandi mæli horft í austur eða horft til Mið-Evrópu, til Brussels, og það hefur gengið erfiðlegar ár frá ári að halda þeim við efnið innan Norðurlandasamstarfsins. Þannig er það bara og við verðum að horfast í augu við þennan veruleika. Auðvitað bendir allt til þess að það ástand fari ekki batnandi heldur þvert á móti, ekki síst núna þegar Eystrasaltslöndin eru komin inn í þetta samstarf við Evrópu. Þá minnkar vægi Norðurlandaráðs gagnvart þessum sömu ríkjum því að þau munu leita þráðbeint inn í Evrópusambandið en Norðurlandaráð sem stofnun verður ekki eins veigamikið í þeirra augum og verið hefur. Þetta er allt veruleiki sem við verðum að horfast í augu við hvort sem okkur líkar það betur eða verr og undirstrikar að við verðum að vera síkvik í þessum breytilega heimi.

Ég ætla ekki að fara í efnislegar umræður, herra forseti. Ég vildi bara halda því mjög ákveðið til haga að í gær urðu stórpólitísk tíðindi, söguleg tíðindi á hinu háa Alþingi. Má satt að segja vera undarlegt að fjölmiðlar landsins hafi ekki áttað sig á því. Hér gerðist það nefnilega í atkvæðagreiðslu við 2. umr. um þetta frv. þegar hin efnislega atkvæðagreiðsla fór fram að allir þingmenn úr öllum flokkum, hver einn og einasti, greiddu atkvæði með þessum samningi, úr Framsfl. sem var fyrir 12 árum þverklofinn í málinu, úr Sjálfstfl. sem var fyrir kosningarnar 1991 með miklar efasemdir í málinu, svo ég tali nú ekki um Vinstri græna sem voru harðir á móti málinu og höfðu fyrirvara í aðdraganda í tilhlaupi málsins í nál. Ég hlýddi af mikilli athygli á ræður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, talsmanns flokksins í þessum efnum, og hlustaði grannt eftir því hverjir fyrirvarar hans væru. Þeir voru efnislega þó nokkrir. Ég þráspurði um það í umræðunni í fyrradag hver hans efnislega afstaða væri að lyktum til þessa máls hér, hvernig hann mundi að lyktum greiða atkvæði. Ég fékk svo sem ekkert svar við því en niðurstaðan varð eftir sem áður sú að þingflokkur hans greiddi atkvæði með EES-aðildinni, hinni endurnýjuðu, hinni nýju. Það eru stórpólitísk tíðindi að flokkur vinstri grænna sem fram að þessu hefur gersamlega séð rautt þegar EES og Evrópusambandið eru annars vegar hafi gengið til liðs við okkur hina sem teljum okkur mjög mikilvægt að halda þessu góða sambandi. Að vísu hittist þannig á að hv. þm. og formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, var illa fjarri góðu gamni en hans góðu félagar stóðu fast í báða fætur og greiddu atkvæði með frv. til laga um stækkun Evrópusambandsins og aðlögun EES-samningsins að þessu nána samstarfi Íslands við Evrópusambandið sem við þekkjum öll hér inni hvernig birtist okkur. Við höfum undirgengist grundvallargildi Evrópusambandsins, um frjálsa för fólks, fjórfrelsið og auðvitað um það að góðu heilli er okkur gert að innleiða tilskipanir Brussels.

Þetta eru stórpólitísk tíðindi, herra forseti, og undarlegt að ekki nokkur fjölmiðill skuli hafa áttað sig á þessu. Það kemur í ljós þegar formaður Vinstri grænna og flokkur hans munu gera betri grein fyrir þessari afstöðubreytingu sinni gagnvart landi og þjóð þegar tímar líða. En ég fagna þessu einlæglega og það er af þeim ástæðum sem ég vek sérstaka athygli á þessum stóru pólitísku tíðindum. Kannski er von til þess, í ljósi þess að nú er þingheimur loksins sameinaður og undantekningarlaust í að horfast í augu við veruleika hlutanna, að þeim flokkum og þeim þingmönnum fari fjölgandi á næstu vikum, mánuðum og missirum sem átta sig á því líka að nú fer senn að verða tími til að taka hin næstu skref sem við jafnaðarmenn höfum talað fyrir, nefnilega að leita eftir möguleikum okkar að aðild, sækja um aðild.

Ég sagði það í ræðu minni í fyrradag að það hefði gjarnan verið hlutskipti okkar jafnaðarmanna í alþjóðapólitíkinni að fara á undan og að stundum hefðum við verið skömmuð fyrir það blóðugum skömmum af pólitískum andstæðingum okkar og talið að við værum að fara langt á undan því sem eðlilegt væri, værum of fljóthuga. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að við höfum haft rétt fyrir okkar. Ég held að atkvæðagreiðslan í gær, herra forseti, hafi undirstrikað klárlega að það var heillaskref sem var tekið 1992 og að við jafnaðarmenn höfðum rétt fyrir okkur á þeim tíma. Stundum líður langur tími þar til aðrir vilja viðurkenna það en það gerðist með ótvíræðum hætti í gær. Ég býð hv. þm. velkomna í hópinn, þá einkanlega og sér í lagi fulltrúa Vinstri grænna. Það var það einkanlega sem ég vildi koma klárt og kvitt á framfæri við þessa umræðu áður en henni lyki.