Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 11:59:56 (5212)

2004-03-11 11:59:56# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er að brjóta í blað með ræðum sínum um þetta efni. Það þýðir ekki fyrir hann að segja að þetta þýði enga stefnubreytingu af hálfu VG. Það getur vel verið að hann sé hræddur núna við sín eigin orð og sínar eigin ræður á fyrri stigum málsins. En staðreyndin er nú samt sem áður sú að hv. þm. lýsti því þá yfir að hann væri Evrópusinni, að hann væri jafnaðarmaður, að hann væri alþjóðahyggjusinni. Það sem skipti þó mestu máli, (SJS: Róttækur jafnaðarmaður.) frú forseti, var að hv. þm. lýsti því yfir að það væri margt gott við Evrópska efnahagssvæðið. Hann tók sérstaklega til efnahagslegra þátta þess, þ.e. þess ávinnings sem til þess mætti rekja hér á landi. Það voru hin sögulegu tíðindi fannst mér, en ekki það að hv. þm. teldi sig jafnaðarmann. Ég var auðvitað fyrir löngu búinn að sjá það að hjartað sem í brjósti hans slær er hjarta jafnaðarmannsins þó að ég vildi gjarnan að hann tæki með nokkrum öðrum hætti á ýmsum þáttum jafnaðarstefnunnar.

Það sem mér finnst hins vegar merkilegt er að hv. þm. er líka hættur að halda því fram að einhver vafi leiki á stefnu Samf. í þessum málum. Í ræðu sinni áðan sagði hann að líklegast væri Samf. Evrópuflokkur. En það er auðvitað alveg ljóst að Samf. vill sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir hönd Íslands og ganga þar inn ef samningar takast. Þetta er á hreinu.

Hv. þm. sagði hins vegar að hér væru þrír flokkar af fimm á móti. Ég tók það svo að að hans dómi væru Samf. og Framsfl. með. Þar með er hann að upplýsa að það er skilningur hans að það sé meiri hluti á Alþingi Íslendinga fyrir Evrópusambandinu. Guð láti gott á vita. En mig langar til þess að spyrja hv. þm.: Hvaða rök hefur hann fyrir því að Framsfl. styðji aðild?