Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:04:19 (5214)

2004-03-11 12:04:19# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist þess fyrr á árum að við áttum stundum í orðaleikjum, ég og hv. þm., áður en hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kom á þing. Ég minnist þess að oftar en einu sinni vísaði hv. þm. til þáv. bæjarstjóra í Hafnarfirði sem fulltrúa hins róttæka arms jafnaðarmannaflokksins sem þá var. Það eru því ýmsir sem geta gert kröfu til þess að vera róttækur jafnaðarmaður.

Ég geri t.d. kröfu til þess með mínum hætti að litið sé á mig sem róttækan jafnaðarmann. Ég og hv. þingmenn Samf. erum aðilar að alþjóðlegum samtökum jafnaðarmanna. Þau heita á ensku Socialist International. (Gripið fram í: En á frönsku?) Þau heita ákaflega svipuðu nafni. Af því að hér er spurt hvað hlutir heita á frönsku, þá heitir Samf. á frönsku Alliance socialiste þannig að mér finnst að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rúmist alveg þar innan og það er líka pláss fyrir hann innan Samf.

Hins vegar erum við að ræða um Evrópusambandið. Það sem mér finnst skipta máli er að það hefur orðið viðhorfsbreyting hjá hv. þm. Vinstri grænna. Áður fundu þeir ekki allt en flest EES til foráttu. Í umræðum um þátttöku okkar í því fyrir áratug notuðu menn hörð orð, jafnvel landráð, að vísu utan þessara sala. Hvað hefur breyst? Reynslan hefur sýnt fram á að þetta var farsælt fyrir efnahagslíf okkar Íslendinga og það er farsælt fyrir okkur að taka þátt í þessu sambandi og stækka það. Breytingin á viðhorfum hv. þm. Vinstri grænna birtist í því að þeir standa ekki gegn stækkun, eins og hv. þm. sagði, en þeir sitja ekki einu sinni hjá. Þeir greiða atkvæði með og það er hin sögulega stefnubreyting af hálfu Vinstri grænna. Þeir greiða nú atkvæði með stækkun EES og þar með með tilvist þess.