Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:28:47 (5221)

2004-03-11 12:28:47# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:28]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það er undarlegt að sú umræða sem hér fór fram um daginn um þetta þingmál skyldi ekki vekja meiri athygli. Það var sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að fjölmiðlar skyldu ekki greina frá þeim merku umræðum og stefnubreytingum sem bersýnilega komu þar fram. Þar bar auðvitað hæst afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hún hefur þegar verið gerð að umræðuefni og ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það.

Þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr sjálfan sig og þingmenn hvað valdi því að ekki varð meira endurkast af þessari umræðu núna, þegar verið er að stækka Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, þá liggur svarið í augum uppi. Það eru engar deilur lengur í íslensku samfélagi um EES. Þau öfl sem áður lögðust gegn því hafa séð, í krafti veruleikans eins og hann er í dag, að þau höfðu rangt fyrir sér. Það er ekkert að því. Í stjórnmálum eins og annars staðar í lífinu hafa menn stundum rangt fyrir sér. Það hefur einfaldlega komið á daginn að sá efnahagsbati sem spáð var að fylgdi aðild okkar að EES hefur gengið eftir. Þá farsæld sem hefur einkennt íslenskan sjávarútveg og íslenskt atvinnulíf, má fyrst og fremst rekja til EES.

[12:30]

Íslenskur sjávarútvegur er í ákveðnum erfiðleikum núna. Hann sætir samkeppni sem hefur komið upp á allra síðustu missirum af hálfu Kínverja en hefur getað brugðist við með ákveðnum breytingum. Þessar breytingar urðu fyrst og fremst mögulegar vegna þess að ákveðnar leiðir sem EES-samningurinn fól í sér voru færar.

Frú forseti. Nú sé ég að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur gengið úr salnum. Ég vildi eiga orðastað við þann góða þingmann sökum þeirra orða sem féllu úr munni hans áðan. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um tiktúrur Evrópusambandsins og benti réttilega á ýmislegt sem aðfinnsluvert er í fari þess sambands. Hins vegar er besta leiðin til að hafa áhrif á framferði sambands að vera aðili að því. Heldur hv. þm. Einar K. Guðfinnsson virkilega að það hefði ekki skipt máli ef Íslendingar hefðu haft rödd innan Evrópusambandsins þegar kom að því að meta framhald fríverslunarsamninga okkar, þegar kom að því að meta aðra hluti sem tengjast framferði Evrópusambandsins? Heldur hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að það hefði ekki skipt máli að við hefðum í samvinnu við aðrar þjóðir getað haft áhrif á tollastefnu Evrópusambandsins gagnvart öðrum þjóðum? Ég spyr vegna þess að hv. þm. talaði af nokkurri ástríðu og mér fannst hann, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, finna að því að Evrópusambandið reisti of háar og illkleifar tollagirðingar gagnvart umheiminum.

Ef Íslendingar yrðu aðilar að Evrópusambandinu mundum við auðvitað vera lítil þjóð þar. Menn eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tala eins og við værum áhrifalaus rödd þar innan. Staðreyndin er sú, frú forseti, að Íslendingar, þrátt fyrir smæð sína, hafa áhrif á alþjóðavettvangi sem er í engu samræmi við stærð þjóðarinnar. Við höfum miklu meiri áhrif í umheiminum en beinlínis stærð þjóðarinnar ætti að geta réttlætt. Af hverju? Vegna þess að við höfum sem smáþjóð borið gæfu til að eiga gott samstarf við aðrar þjóðir. Við höfum lagt ríka áherslu á að ná góðri samvinnu við smáþjóðir, en við höfum sérstaklega náð mjög góðum tengslum við Norðurlandaþjóðir.

Ef við og Norðmenn værum innan Evrópusambandsins má segja að Norðurlandaþjóðirnar væru ígildi stærstu þjóða Evrópusambandsins varðandi atkvæðafjölda innan sambandsins. Það hefur alltaf gengið eftir að Norðurlandaþjóðirnar hafa stutt hagsmuni okkar því í flestum tilvikum hafa þeir farið saman við hagsmuni þeirra, en líka vegna þess að við eigum til skyldleika að telja við þær. Við höfum alltaf stutt þær.

Ég vil segja við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og Steingrím J. Sigfússon að afl okkar innan Evrópusambandsins yrði alltaf miklu meira en sem nemur þeim atkvæðum sem við ein sem þjóð mundum fá.

Þar að auki bætist við að þrjár þjóðir eru nú að ganga í Evrópusambandið, baltnesku þjóðirnar Eistland, Litháen og Lettland. Ekki þarf að taka fram að við áttum okkar ósmáa þátt í lokahnykk sjálfstæðisbaráttu þeirra þjóða. Þau áhrif sem við höfðum á hana voru langt umfram stærð þjóðar okkar. Það er ekki langt síðan ég átti þess kost að ferðast með einum þingmanni, hv. þm. Gunnari Birgissyni, um þessi svæði og fann mjög vel, eins og allir íslenskir þingmenn sem þarna ferðast um, þann hlýhug sem þessar þjóðir bera til Íslands.

Þær þjóðir hafa lagt mikla áherslu á, á síðustu árum, að ná sem kröftugastri samstöðu með Norðurlandaþjóðunum. Sérstakt ráð, Eystrasaltsráðið, er vettvangur þeirrar samvinnu. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessar þjóðir horfa til Norðurlandanna sem helsta samstarfsaðila síns á sviði utanríkismála á næstu árum.

Ef við leggjum saman styrk smáþjóðanna sem Norðurlandaþjóðirnar teljast í dag og Eystrasaltsþjóðanna, er engum blöðum um það að fletta að það á að vera auðvelt fyrir okkur að hafa ákaflega þungt afl á bak við sanngjarnar kröfur sem við þyrftum að setja fram til þess að verja hagsmuni okkar. Ég óttast því ekki að innan Evrópusambandsins færu íslenskir hagsmunir forgörðum vegna smæðar þjóðarinnar.

Það er einfaldlega óþolandi minnimáttarkennd þegar íslenskir stjórnmálamenn tala með þeim hætti að vegna þess að við séum svo lítil getum við ekki haft áhrif innan stórra sambanda eins og Evrópusambandsins.

Hins vegar er alveg rétt sem ýmsir menn, sem kalla sig þessa dagana Evrópusinna eins og hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hafa verið að segja í þessum sölum allra síðustu daga og í dag, að samt sem áður er margt aðfinnsluvert við Evrópusambandið. Það er í mínum huga fyrst og fremst tvennt: Evrópusambandið er ekki nægilega lýðræðislegt. Innviðir þess eru með þeim hætti að þegnar ríkjanna sem þurfa að hlíta lögum sem koma úr smiðju Evrópusambandsins hafa ekki haft nægilega rík áhrif á gerð þeirra. Hitt er það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur margoft gert að umræðuefni, að Evrópusambandið hefur reist mjög háa tollamúra í kringum sig sem gerir það að verkum að erfitt er fyrir fátækari þjóðir að koma framleiðslu sinni á vettvang í mörkuðum vel stæðra ríkja.

Mig langar að gera þetta tvennt að umræðuefni vegna þess að ég held að einmitt þessar tvær aðfinnslur sem þingmenn, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, nota sem röksemdir gegn Evrópusambandinu, ættu að verða að röksemdum fyrir því að ganga í sambandið. Það þarf nefnilega þjóðir eins og okkar sem búa að ríkri lýðræðishefð og ríkri samstöðukennd með fátækari og smærri þjóðum heimsins til að hafa áhrif til breytinga á einmitt þessum þáttum innan Evrópusambandsins.

Ég vil taka fram, frú forseti, að Evrópusambandið sjálft gerir sér grein fyrir þeim ágalla sem felst í því að lýðræði sé ekki nægilegt innan sambandsins. En lýðræðið innan Evrópusambandsins í dag er allt annað og miklu betra en fyrir fimm árum. Það er gjörólíkt því sem það var fyrir tíu árum. Alls staðar innan Evrópusambandsins eru vaxandi kröfur um aukið lýðræði. Lýðræðið vinnur þannig að þeir sem takast á með rökum, þeir sem vegast á með málefnalegum ágreiningi þoka hlutunum áfram.

Þess vegna hefur það verið styrkur Evrópuþingsins og eitt af driföflunum til aukinnar lýðræðisvirkni og breytinga í átt að lýðræði innan þess að hafa menn eins og Jens-Peter Bonde, hinn danska, harða talsmenn þeirra sem hafa verið á móti Evrópusambandinu. Þess vegna yrði það gott fyrir Evrópusambandið og Evrópuþingið að hafa menn eins og hv. þm. Ögmund Jónasson innan sinna vébanda vegna þess að gagnrýni þeirra hefur áhrif.

Þeir sem líta á sig sem raunverulega alþjóðasinna og vilja breyta heiminum þannig að réttlæti verði meira og fátæku þjóðirnar eigi meiri möguleika á að efla og bæta velferð sína, hljóta að horfa til þess möguleika að geta haft áhrif á stórt ríkjasamband eins og Evrópusambandið sem hefur áhrif um gjörvalla kringluna.

Ég er að komast á þá skoðun að besta leiðin til að aðstoða fátækar þjóðir á vegferð þeirra til bjargálna sé ekki sú hefðbundna aðferð sem við höfum beitt í formi þróunaraðstoðar, sem skilar sér með misjöfnum hætti og veraldarsagan sýnir allt of mörg dæmi um að hefur aðallega í sögunnar rás farið í að fóðra vasa spilltra stjórnarherra víðs vegar í illa þróuðum lýðræðisríkjum hér og þar í heiminum. Ég held að besta leiðin til að hjálpa örbjarga þjóðum til bjargálna sé að auka fríverslun. Fríverslun er besta ráðið til að ýta undir framleiðslu í þeim ríkjum, til að ýta undir frumkvæði og framtak einstaklinganna, til að skapa markað fyrir afurðir þeirra.

Þá blasir hins vegar við að stærstu ríki og ríkjasambönd heimsins hafa reist tollamúra sem byggjast miklu fremur á síngirni en réttlætiskennd, byggjast á því að verja sinn eigin hólma fremur en að greiða fyrir uppgöngu annarra.

Það er löstur Evrópusambandsins að hafa byggt í kringum sig múratolla. En nú vill það svo til að innan sambandsins, sem hefur komið til umræðu fyrr á þessum morgni, Alþjóðasambands jafnaðarmanna, gera menn sér grein fyrir þessu. Forustumenn Alþjóðasambands jafnaðarmanna hafa í vaxandi mæli verið að vekja máls á því að eigi að jafna kjörin meðal allra þeirra sem búa á jarðarkringlunni, þurfum við að draga úr tollamúrum. Ég vísa til þess að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, fremsti maður Verkamannaflokksins og einn af áhrifamestu mönnum Alþjóðasambands jafnaðarmanna, hefur í vaxandi mæli lagt áherslu á þetta á síðustu árum. Við jafnaðarmenn sem fylgjum Evrópusambandinu að málum getum hins vegar einmitt vegna stuðnings okkar við það leyft okkur að gagnrýna það harkalega. Og þessa þætti Evrópusambandsins gagnrýnum við harkalega. En þeir sem gera það utan frá og vilja ekki sjá sambandið verða að skýra af hverju þeir vilja ekki fremur fara inn fyrir múra þess og nota afl sitt þar til að sneiða af ágallana.

Þegar ég skoða umræðuna sem hefur átt sér stað er það merkilegasta í henni sú staðreynd að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur stutt þingmálið. Hún styður núna stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Hún situr ekki hjá, heldur greiðir atkvæði með henni. Það þýðir að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur í reynd skipt um skoðun á EES. Hún er búin að sjá að efnahagslegar afleiðingar þess eru að mörgu leyti ákaflega góðar. Það hefur formaður Vinstri grænna staðfest í ræðu hér. Hann hefur til upprifjunar fyrir þingmenn Vinstri grænna sem hafa gengið í salinn, sagst vera Evrópusinni, sagst vera jafnaðarmaður, sagst vera alþjóðahyggjusinni og segir að vinstri grænir séu fallnir frá þeirri stefnu að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið og vilji áfram hafa Evrópska efnahagssvæðið. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði: ,,Veruleikinn er eins og hann er.``

Ef menn eru komnir á þá skoðun eru þeir í reynd búnir að fallast á að Íslendingar eigi að vera aukaaðilar að Evrópusambandinu. EES og aðild okkar að því felur ekki í sér neitt annað en það. Þá mundi ég segja að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé komin hálfa leið. Auðvitað skiptir þessi mikla samstaða í kringum stækkun EES, sem hér hefur myndast fyrst og fremst vegna stefnubreytinga hennar, miklu máli. En mér finnst að menn ættu líka að horfa lengra inn í framtíðina. Þeir sem barist hafa hvað lengst til að bæta kjör manna, ekki bara á Íslandi heldur líka alþjóðlega, af hverju ættu þeir ekki að komast að þeirri niðurstöðu að fyrst Íslendingar geta verið aukaaðilar að ESB, hví þá ekki fullgildir aðilar? Þeir gætu þá í krafti samstöðu með Norðurlandaþjóðum, í krafti samstöðu með Eystrasaltsþjóðunum, í krafti samstöðu með öðrum smáríkjum innan sambandsins læst saman klónum til að breyta verstu ágöllum sambandsins, sem eru tollamúrarnir, og um leið gefa fátækari þjóðum heimsins kost á að flytja framleiðslu sína á ríkustu markaði heimsins.

[12:45]

Út á hvað gengur stækkun Evrópusambandsins núna? Öryggissjónarmið ráða ekki síst ákvörðun sumra þjóða. En tvennt annað skiptir máli frá eigingjörnum sjónarhóli þeirra þjóða sem fyrir eru í sambandinu, hinna gömlu Evrópuþjóða. Auðvitað er verið að tryggja vinnuafl út þessa nýbyrjuðu öld. Það vantar tugi milljóna vinnandi handa þegar líður fram á öldina. Það er verið að tryggja vinnuafl með því greiða fólki þar frjálsa för inn á þau svæði Evrópu þar sem skortir vinnuafl. Það er eitt.

Hitt atriðið er að með því að þessi lönd verða aðilar að innri markaði Evrópusambandsins er búið að greiða leiðina fyrir afurðir þessara landa inn á markaði ríku þjóðanna sem geta greitt meira og hafa miklu meiri kaupmátt en er að finna í þessum ríkjum. Þar með er verið að beita frjálsri verslun til þess að lyfta kjörum þeirra sem búa í löndunum sem núna eru að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það eru ríki sem búa við kjör sem eru snöggtum verri en t.d. í Englandi, Þýskalandi og Danmörku. En í gegnum frjálsa verslun sem innri markaðurinn býður upp á er verið að stefna að því að smám saman lyftist kjörin í öllum ríkjum Evrópusambandsins. Þetta er eðli frjálsrar verslunar. Hún hefur jafnandi áhrif.

Röksemd mín gagnvart þeim sem andæfa Evrópusambandinu á þeim grundvelli að það komi í veg fyrir að fátæku þjóðirnar geti selt vörur sínar inn á markaðinn er þessi: Komið þið með okkur í slaginn fyrir því að Ísland gangi inn í Evrópusambandið. Þar tökum við saman höndum við aðra sem gagnrýna þetta frá nákvæmlega þessum sjónarhóli til að breyta þessu. Ég er sannfærður um að ágætir menn eins og hv. þingmenn VG telja það erfitt af fullveldisástæðum.

Þegar við gengum á sínum tíma inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið var álitamál hvort ekki væri verið að brjóta stjórnarskrána. Menn voru ekki sammála um það þá. Sú leið var farin að til voru kallaðir fjórir lagaspekingar sem gáfu álit á því og þeir töldu að við værum þarna á gráu svæði. Hins vegar töldu þeir að álitamálin væru ekki svo rík að þau nægðu til þess að hægt væri að komast að þeirri niðurstöðu að innganga í EES þýddi brot á stjórnarskránni. Þeir sögðu hins vegar: Það er á gráu svæði. Haldreipi manna þá var sú staðreynd að við gátum á fyrstu stigum lagasmíðar innan Evrópusambandsins haft áhrif í ákveðnum ráðgjafarnefndum framkvæmdarstjórnarinnar.

Nú hefur þetta breyst. Nú hafa auknar lýðræðiskröfur innan Evrópusambandsins gert það að verkum að valdið er ekki lengur í þeim mæli hjá framkvæmdarstjórninni sem áður var. Það hefur færst yfir til Evrópuþingsins til þess að svara lýðræðislegri þörf, en þar höfum við enga aðkomu vegna þess að við eigum engan fulltrúa þar. Með öðrum orðum, frú forseti, það sem hægt var að verja áður frá sjónarhóli stjórnarskrár er hugsanlega ekki hægt í dag. Þessar breytingar sem hafa orðið á innviðum Evrópusambandsins hafa mögulega ýtt okkur yfir hið gráa svæði, ýtt okkur þangað sem aðild að óbreyttu felur í reynd í sér brot á stjórnarskránni. Það er þess vegna sem það er líka ein af röksemdunum fyrir aðild hjá mér og mörgum Evrópusinnum að með því að ganga í sambandið er ljóst að enginn vafi leikur á að staða okkar gagnvart Evrópu sé í bága við núverandi stjórnarskrá. Frú forseti, aðild að Evrópusambandinu í dag eykur fullveldi okkar.

En ég vil líka taka fram að í dag er heimurinn þannig að það er styrkur sérhverrar þjóðar, sérstaklega öflugra smáþjóða, að deila fullveldi sínu. Í þessum alþjóðlega heimi er það þannig að ekkert ríki hefur fullveldi sitt óskert nema hugsanlega Albanía. Styrkur fullvalda ríkja eykst með því að deila fullveldinu. Þetta erum við alltaf að gera þegar við samþykkjum alþjóðlega samninga. Þeir fela yfirleitt ekkert annað í sér en það að við erum að deila fullveldi okkar með öðrum þjóðum.

Þegar við gerðum hinn merka samning um sameiginlegan vinnumarkað fyrir Norðurlöndin sem ég held að hafi verið gerður á sjöunda áratugnum, stórmerkan samning sem undirstrikaði skyldleika þessara þjóða, vorum við um leið að afsala okkur litlum hluta af fullveldi okkar til annarra þjóða. Við réðum ekki lengur að öllu leyti vinnumarkaðnum. Þetta fullveldisafsal takmarkaðist að vísu við hinar góðu frændþjóðir okkar. Ég nefni þetta sem dæmi um það hvernig alþjóðlegur samningur felur í sér afsal á fullveldi en verður samt til þess að styrkja fullveldið.

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að hafa frekari orð um þetta. Ég tel eftir þessi sögulegu skipti sem mér finnast hafa orðið í umræðunni um Evrópu, og vísa þá til afstöðubreytingar VG, að þá ættu þeir ágætu menn sem þar ráða för að hugsa í fullri alvöru hvort þeir ættu ekki að stíga skrefið til fulls og taka undir þær óskir sem Samf. hefur sett fram um að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. Það er mjög auðvelt fyrir þá sem skilgreina sig sem róttæka jafnaðarmenn og Evrópusinna, eins og VG gerir þessa dagana, að taka slíka ákvörðun á grundvelli krafna um aukinn jöfnuð innan Evrópusambandsins. Það er ekki síður auðvelt fyrir þessa róttæku jafnaðarmenn og Evrópusinna í VG að gera það til þess að reisa kröfuna um vaxandi lýðræði innan Evrópusambandsins. Við sjáum að sambandið er þegar að því leytinu til á góðri leið. En alltaf er þörf fyrir hjálpandi hönd.