Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:58:42 (5225)

2004-03-11 12:58:42# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég verð bara að segja að það er fullkomlega rökrétt afstaða af hálfu VG að hafa tekið miklu jákvæðari og vinsamlegri pól í hæðina til Evrópusamstarfsins en þeir hafa áður gert. Ég er ekki að halda því fram að hv. þingmenn VG séu orðnir einhverjir sérstakir Evrópusambandssinnar. En klárt er að viðhorf þeirra gagnvart EES eru allt önnur en áður.

Hins vegar fagna ég því að hv. þm. Ögmundur Jónasson boðar það að hann ætlar að halda ræðu hér í dag til að skýra afstöðu VG. Ég get upplýst hv. þm. um að formaður VG hefur þegar haldið ræðu hér í dag og tvær fyrir tveimur dögum einmitt til að skýra þessa afstöðu VG. Ég geri þá ráð fyrir að hv. formaður þingflokks VG sé að koma hingað til þess að leiðrétta afstöðu formanns VG.