Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 13:31:34 (5226)

2004-03-11 13:31:34# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur þá umræðu sem fór fram hið fyrra sinnið um þetta mál en ég hef fylgst með umræðum hér í morgun og heyrt þann enduróm sem hér hefur komið fram af þeim ræðuhöldum. Vegna þess að hér stendur einn af þeim sem greiddu atkvæði gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma finnst mér ástæða til að mæta í ræðustólinn og gera grein fyrir afstöðu minni til málsins núna.

Nú er það ekki þannig að ég líti svo á að ég sé kominn í skriftastól og þurfi að biðja einhvern afsökunar á afstöðu minni þegar þessi samningur var afgreiddur í þinginu. Það er síður en svo. Ég tel að það sem ég byggði afstöðu mína á á þeim tíma hafi allt saman verið rétt. Þetta var ekki bara á gráu svæði að mínu mati þá, hvað varðaði sjálfstæði þjóðarinnar, heldur bókstaflega á svörtu svæði. Það hefur verið leikið, reyndar oftar en í þetta sinnið, að fara yfir á það sem menn kalla sjálfir grátt svæði gagnvart stjórnarskránni og ekki tekist vel að mínu mati. Ég vil meina að í sölum hv. Alþingis ættu menn að gá að sér í málum þegar þeir telja sig vera komna á grátt svæði gagnvart stjórnarskránni. Hér var öllum tilmælum um það að beina úrskurði í þessu máli til þjóðarinnar neitað á sínum tíma og ekki hlustað á þá sem bentu á að þarna væri á ferðinni veruleg hætta á því að við værum að brjóta stjórnarskrána.

Það sem ég vil síðan segja er að þessi samningur hefur á margan hátt reynst vel hvað varðar efnahagslega hlutann og betur jafnvel en þeir sem trúðu á þann þátt málsins mest, héldu fram í sölum Alþingis. Það stóðt allt og fyllilega það.

Svo verð ég að bæta því við að mér finnst að okkur hafi tekist að lifa betur við valdaafsalið en við héldum sem greiddum atkvæði gegn samningnum á þeim forsendum. Ég verð að segja að þegar menn eru núna að ræða um þennan samning og stækkun hans er það engin spurning í mínum huga að við hljótum auðvitað að styðja þessa stækkun enda hefur hún engin áhrif á það valdaafsal sem við erum búin að gera með samningnum áður og breytir ekki stöðu okkar gagnvart honum að því leyti til.

En menn hljóta að velta því líka fyrir sér, af því að alltaf er umræðan uppi um það hvort við eigum að ganga alla leið inn í Evrópusambandið, hverju það mundi breyta gagnvart valdaafsali að gera það. Skoðun mín er sú að fátt hafi verið tínt fram sem bendi til þess að valdaafsalið við það að ganga inn í Evrópusambandið verði miklu meira en það sem þegar er. Af þeim ástæðum finnst mér alveg ástæða til að menn skoði þann kost nánar en gert hefur verið. Þar eru ýmsir hlutir sem þarf að skoða vandlega áður en menn taka slíka afstöðu, ef hún verður þá tekin, en mér finnst ekki ástæða til annars en að það mál verði skoðað mjög vandlega. Og ég verð að viðurkenna að mér finnst að sjálfstæðismenn, sem hafa tekið mjög harða afstöðu gegn því að ræða um aðild að Evrópusambandinu, hafi haft hlutverkaskipti við okkur sem börðumst á móti samningnum á grundvelli þess að við teldum að um of mikið valdaafsal væri að ræða til þess að við gætum fallist á það. Nú koma sjálfstæðismenn með þau rökin að ef menn gangi í Evrópusambandið sé valdaafsalið það sem skipti öllu máli.

Ekki skal ég hafa mjög mörg orð um þetta. Menn hafa gjarnan barið sér á brjóst og sagt: Við höfðum rétt fyrir okkur. Það get ég líka sagt vegna þess að við sem vorum á móti höfðum rétt fyrir okkur hvað varðar valdaafsalið. Hins vegar skilar það litlu að vera með slíkan brjóstbarning og minnir svolítið á þann sífellda barning sem frjálshyggjumenn í landinu hafa uppi um að þeir hafi haft rétt fyrir sér og að þjóðfélagið hafi breyst fyrir þeirra tilverknað í það sem það er í dag.

Auðvitað er það ekki þannig. Auðvitað höfðu þeir rétt fyrir sér í ýmsu en aðrir í öðru, og margt af því sem frjálshyggjumenn börðust á móti hefur orðið að veruleika. Ég held að félagshyggjufólk og sósíalistar geti býsna vel við unað þann árangur sem orðið hefur í baráttumálum þeirra á þessum sama tíma og frjálshyggjumenn hæla sér af því að þeir hafi náð málum fram. Þjóðfélagið hefur sannarlega þróast og réttindamál fólks hafa náð fram að ganga þó að ýmislegt sé þar eftir en auðvitað er pólitíkin þannig að menn geta ekki staðið í stað, heldur verða þeir sífellt að taka afstöðu til mála á grundvelli þeirrar stöðu sem er komin upp. Það erum við að gera hér.

Mér finnst það þjóna litlum tilgangi að hælast um yfir því að menn hafi haft rétt fyrir sér þegar þeir eru þá ekki tilbúnir einu sinni að viðurkenna í hvaða efni þeir höfðu rangt fyrir sér. Þó hafa þeir gert það, sumir hverjir að mínu viti, með þeim skýru yfirlýsingum sem fram hafa komið hjá mjög mörgum af stjórnmálamönnum hér, að það þurfi að leggja undir þjóðaratkvæði ef ganga eigi í Evrópusambandið. Ég verð að segja að það hlægir mig dálítið að menn skuli telja það einsýnt að það eigi að leggja inngöngu í Evrópusambandið undir þjóðaratkvæðagreiðslu, sömu menn sem töldu einsýnt að Evrópska efnahagssamninginn ætti ekki að leggja undir þjóðaratkvæði. Og ég segi bara: Batnandi mönnum er best að lifa. Mér finnst að þá sé ástæða til að fagna því að um það skuli vera full samstaða, að ef til þess komi að tekin verði ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandið fái hún staðfestingu þjóðarinnar. Þá tel ég a.m.k. ástæðu til að fagna því að þá væri ég í sigurliðinu.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa mín orð fleiri. Mér fannst ástæða til að koma í ræðustól og lýsa því yfir að ég ætla að styðja stækkun Evrópusambandsins og að minna á að sú umræða sem fór fram var að mjög stórum hluta umræða um sjálfstæði þjóðarinnar og það valdaafsal sem fólst í samningnum. Þó að menn hafi ákveðið að sætta sig við það valdaafsal var það ekki minna en menn töluðu um, heldur meira. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að á hv. Alþingi renna í gegn ákvarðanir Evrópusambandsins án þess að alþingismenn, hvorki ég né aðrir, telji það hlutverk sitt að lesa í gegn nákvæmlega sem þar stendur, stundum þegar löng eru plöggin sem koma frá Evrópusambandinu til umfjöllunar á hv. Alþingi.