Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 13:45:35 (5229)

2004-03-11 13:45:35# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Mörður Árnason (andsvar):

Ég hygg að það sé rétt hjá síðasta hv. ræðumanni að það er grundvallarmunur á því að hafa tekið afstöðu á sínum tíma gegn málinu vegna þess að menn álitu að það þyrfti að bera undir þjóðaratkvæði því það samrýmdist ekki stjórnarskránni eða að gera það á efnislegum forsendum. Þeir sem gerðu þetta á sínum tíma skulda okkur auðvitað skýringar á því vegna þess að málið heldur áfram að vera til núna.

Ég held að sá galli hafi kannski verið á þessum málatilbúnaði öllum að strax í upphafi bar þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið í sér ákveðna feigð, þannig að maður tali nokkuð stórt, þ.e. þetta var embættismannasamningur og menn héldu áfram að líta á hann sem nánast venjulegan alþjóðasamning og skiptu sér ekki af honum pólitískt. Það voru því embættismennirnir sem hittu embættismenn Evrópusambandsins og síðan ráðherrarnir í svona takmörkuðu samstarfi, en þingið í engu. Það þýddi það auðvitað undir eins að þingið missti í raun öll möguleg áhrif sem það gat haft. Það hefði --- það er þáskildagatíð, enda erum við bara í andsvörum en ekki í löngum þingræðum --- en það hefði auðvitað átt að stofna strax Evrópunefnd sem hefði farið yfir þessi mál og hvað var að gerast í Evrópusambandinu áður en frumvörpin komu fullbúin hingað og þingið hefði átt að hafa sjálfstæða erindreka í Brussel til þess að fylgjast með og reka á eftir því sem þar gerðist.

Afleiðingarnar eru náttúrlega þær að nú stöndum við frammi fyrir því að samningurinn er í raun í dauðateygjunum og næst er það að ganga skrefið til fulls og taka á samningnum og á þessu samstarfi pólitíska ábyrgð með því að ganga í Evrópusambandið með þeim skilyrðum sem við að sjálfsögðu setjum fyrir því. Um það hygg ég að ég og hv. síðasti ræðumaður séum bara nokkuð sammála.