Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 13:47:34 (5230)

2004-03-11 13:47:34# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega í eðli samnings eins og þessa, þar sem Evrópusambandið með öll sín lönd er annar aðilinn á móti þeim litlu ríkjum sem eftir eru hinum megin, og var frá upphafi þannig að Evrópusambandið gæti ekki fallist á að breytingar innan þess væri hægt að stöðva með einhverjum hætti af þeim sem ættu aðild að þeim samningi sem við erum hér að tala um. Það lá því alltaf fyrir að menn yrðu að horfast í augu við það að breytingar sem þeir ákvæðu mundu ganga hér yfir og undir það var skrifað í þessum samningi. Menn höfðu nánast ekkert um annað að velja en að segja sig frá samningnum eða fallast á þá niðurstöður sem hafa orðið hjá Evrópusambandinu. Það hafa menn gert fram að þessu og una við það betur en ég reiknaði með í upphafi.

Ég tel, eins og ég sagði áðan og vil endurtaka það, að nauðhyggjan sem fólgin er í þessu fyrirkomulagi sé niðurlægjandi fyrir Íslendinga og af þeim ástæðum sé full ástæða til að fara yfir það í fúlustu alvöru hvort ekki sé þá betra að ganga alla leið og ganga í þetta kaupfélag sem þarna er rekið, því kaupfélag er þetta nú að mestu leyti og hugsað út frá svipuðum grundvallarhugmyndum og kaupfélög hvað viðskipti varðar. En það hefur ýmislegt gott í för með sér. Þarna er verið að vinna við miklu fleira en kaupskap, mannréttindi t.d. og marga hluti sem ekki er hægt að ræða hér í stuttu andsvari.

Ég endurtek það bara að ég tel ástæðu til að menn fari yfir það vandlega og tel fulla ástæðu til að halda því fram að það geti verið meira sjálfstæði fólgið í aðild en því að hafa þennan samning.