Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 13:49:44 (5231)

2004-03-11 13:49:44# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti ágæt umræða og fróðleg og eðlilegt er að menn geri grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála. Það gerði m.a. fyrr í dag hv. þm. Össur Skarphéðinsson. En þar lét hann ekki sitja við það eitt að gera grein fyrir sinni afstöðu og síns flokks heldur einnig fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það reyndar kom fram ákveðinn misskilningur sem ég tel ástæðu til að leiðrétta. Ég gerði það að vísu í stuttu andsvari hér fyrr. Það virtist vefjast eitthvað fyrir hv. þm. að skilja hvers vegna Vinstri hreyfingin -- grænt framboð greiðir ekki atkvæði gegn stækkun Evrópusambandsins. Það sem hér er um að ræða er að lýðræðislegur vilji þjóða sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu nái fram að ganga. Að sjálfsögðu leggjum við ekki stein í götu þess. Ég bar saman annars vegar stækkun Evrópusambandsins og hins vegar stækkun NATO sem er allt annar handleggur og við höfum ekki stutt einfaldlega vegna þess að við teljum skaðlegt að efla hernaðarbandalagið NATO. Það er eðlilegt að sá lýðræðislegi vilji þessara þjóða sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu og fengið nái fram að ganga og þá einnig í þeim samningum sem við eigum aðild að, samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.

Það gerist nú sem oft áður að menn mæra mjög þennan samning um Evrópska efnahagssvæðið án þess reyndar að tilgreina rökin. Þetta er svona eiginlega fast viðlag í umræðunni um hversu góður þessi samningur hafi verið. En síðan þegar menn eru beðnir að færa rök fyrir sínu máli og tilgreina dæmin þá vill það standa svolítið í þeim. Menn hafa t.d. iðulega sagt að launafólk hafi haft stórkostlegan ávinning af því að ganga í hið Evrópska efnahagssvæði og undir hið Evrópska reglugerðarverk. Þegar síðan spurt er hvaða dæmi menn vilji nefna um hina miklu áfangasigra þá stendur það svolítið í þeim. Á móti hefur verið á það bent, m.a. af þeim sem hér stendur, að stærstu framfaraskrefin sem Íslendingar hafa stigið á sviði réttindamála fyrir launafólk voru tekin innan lands. Ég vísa þar t.d. í lífeyrislöggjöf og breytingar sem gerðar hafa verið á lífeyriskerfinu hér. Ég vísa í lög um fæðingarorlof sem eru einn merkasti áfanginn í réttindabaráttu hér á landi í langan tíma. Ég gæti tekið fleiri dæmi um ákvarðanir sem Íslendingar hafa tekið á eigin spýtur á eigin forsendum og eru núna öfundarefni annarra þjóða.

Ég er sjálfur nýkominn af fundi verkalýðssamtaka á Norðurlöndum þar sem menn hafa einmitt verið að beina sjónum sínum að þessum þáttum, þ.e. þar sem Íslendingar skara fram úr og þykja gott fordæmi. Ég auglýsi því eftir rökunum um ágæti þessara samninga.

Síðan er hitt sem virtist vefjast fyrir formanni Samf. fyrr í dag, þ.e. að skilja hvers vegna Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sem einu sinni var gegn samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði segi honum ekki upp og gangi til viðræðna um tvíhliða samning. Við höfum margoft skýrt frá því að það er tvennt ólíkt að ganga óbundinn til slíkra samninga annars vegar og hins vegar að segja sig frá því samkomulagi sem við höfum gert til að setjast að samningaborði um tvíhliða samning. Þessu er ekki saman að jafna. Við teljum að við mundum stórlega veikja stöðu okkar ef við færum að með þeim hætti. Hins vegar má vel vera að í framtíðinni munum við enda uppi með tvíhliða samning við Evrópusambandið. Það kæmi mér ekki á óvart.

Aðeins nánar um Evrópusambandið og Evrópusamrunann. Það er ánægjulegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli kominn hingað til umræðunnar og efast ég ekki um að hann mun hlýða á hana, hvort sem það er hér í þingsalnum eða annars staðar. Saga Evrópusambandsins er um margt afskaplega merkileg. Upp úr lokum heimsstyrjaldarinnar síðari var stofnað kola- og stálbandalagið og síðan er undirritaður Rómarsáttmáli í lok sjötta áratugarins 1957. Síðan kom hver sáttmálinn á fætur öðrum. En það sem einkennir þessa þróun er að í upphafi er bandalagið mjög lausbeislað, mjög laust að öllu leyti. Það þróast síðan yfir í bandalag ríkja, síðan yfir í samband og núna að síðustu erum við að verða vitni að því að þetta samband er að renna saman í eitt ríki. Þetta er þróunin sem hefur orðið. Nú eru menn að ræða nýja stjórnarskrá fyrir þetta nýja ríki.

Ég rifja þetta upp vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði: ,,Hvers vegna reyna lýðræðissinnar, lýðræðissinnað félagshyggjufólk ekki að fá sínu framgengt innan þessa nýja ríkis, reyna að hafa áhrif á mótun þess? Hvers vegna gera menn þetta ekki í stað þess að standa þarna fyrir utan?`` Hann var að beina orðum sínum til okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, sagði að við ættum að kúvenda í þessu efni og reyna að berjast fyrir okkar pólitísku markmiðum innan Evrópusambandsins en ekki utan þess.

Reyndar er það svo að innan Evrópusambandsins á sér stað geysileg togstreita. Hún birtist í margvíslegri mynd. Það er togstreita á milli þjóðríkisins og Evrópu eða samrunasinna, getum við kallað þá. Þátttakendur í þessari togstreitu eru þjóðþingin, Evrópuþingið, síðan stofnanir Evrópusambandsins, framkvæmdanefndin og ráðherraráðið. En vægi allra þessara stofnana, þjóðþinganna, Evrópuþingsins, framkvæmdanefndarinnar og ráðherraráðsins hefur verið að breytast í tímans rás. Hér fyrr á tíð höfðu t.d. einstök þjóðríki í nánast öllum málum neitunarvald. Í nánast öllum málum höfðu þjóðríki neitunarvald. Úr þessu hefur smám saman verið að draga.

Það hefur líka verið að draga úr áhrifum þjóðþinganna. Þau eru ekki öll sátt við þá þróun. En þetta er engu að síður staðreynd. Evrópuþingmennirnir segja eðlilega að eftir því sem ákvörðunarvaldið í mikilvægum málum færist inn í miðlægar stofnanir, framkvæmdanefnd og ráðherraráðið sérstaklega, þá er eðlilegt að við fáum aukið vægi sem aðhaldsaðili að því valdi.

Ef við lítum nú á þær stofnanir sem verið er að hvetja okkur til að ganga inn í. Hverjar eru þær og hvernig hafa þær verið að þróast? Í framkvæmdanefndinni eiga fulltrúar hvers þjóðríkis aðild. Í framkvæmdanefndinni sitja embættismenn. Þeir hafa verið kallaðir ráðherrar eða framkvæmdastjórar, framkvæmdastjórar fyrir einstaka málaflokka. Ráðherranefndin hins vegar hefur á að skipa fulltrúum frá þjóðríkjunum. Þar eru núna 87 fulltrúar. Ef Íslendingar væru þar inni núna þá værum við sennilega með tvo fulltrúa. Við værum með meira en tveggja prósenta vægi. Þegar nýr sáttmáli verður hins vegar kominn til framkvæmda í ársbyrjun 2005 breytist þetta. Þá yrði vægi okkar innan við 1%. Þá er gert ráð fyrir að í ráðherraráðinu hefði verið fjölgað úr 87 yfir í 345. Ef við berum okkur saman við ríki af svipaðri stærð, Möltu, þá kemur Malta til með að fá þrjá fulltrúa. Það er sennilega fjöldinn sem við fengjum þarna inn.

[14:00]

Það er í þessu ráðherraráði sem ákvarðanir eru teknar sem snerta okkar hag. Til hvaða mála erum við að vísa þar? Við erum að vísa til ákvarðana t.d. um sjávarútvegsmál. Við inngöngu í Evrópusambandið mundum við glata valdinu til að semja um fiskveiðar á bilinu 12--200 mílur. Þar erum við einráð núna. Þar eru Íslendingar einráðir. Við mundum glata réttinum til að semja um fiskveiðar á því svæði, frá 12 mílum í 200 mílur.

Ekki nóg með þetta. Við mundum glata í hendurnar á þessu apparati, þar sem við hefðum innan við 1% vægi, möguleikum til að semja um allt sem gerist utan 200 mílnanna, úthafsveiðar, síld, loðnu, rækju, karfa, kolmunna. Þetta eru um 30% af útflutningsverðmætum íslensku þjóðarinnar sem koma úr sjónum sem þarna er um að tefla. Við mundum glata tækifæri til að semja um þetta.

Þá spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum ætti þjóð sem kemur fram sem eitt atkvæði gagnvart öðrum þjóðum, stórum og smáum, sem einnig hafa eitt atkvæði, með öðrum orðum á jafnréttisgrundvelli, til samninga um slík brýn hagsmunamál okkar, hvers vegna í ósköpunum ættum við að afsala okkur þessu valdi? Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það? Þetta er fullkomlega fráleitt.

Ég tók eftir því að hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan þegar hann talaði fyrir þeirri skoðun sinni að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu samkvæmt þeim skilyrðum sem við kæmum til með að setja. Þetta er ein af alvarlegustu blekkingunum, þykir mér, í málflutningi þeirra sem segjast ætla að sækja um aðild og síðan sjá hvað kemur út úr þeirri umsókn. Það liggur alveg ljóst fyrir hvað kemur út úr slíkri umsókn enda hefur það verið staðfest af þeim mönnum sem véla með þessi mál á vegum Evrópusambandsins. Má þar vísa meðal annarra í Franz Fischler, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, sem tók af öll tvímæli um að Íslendingar mundu missa yfirráð yfir miðunum í kringum landið frá 12--200 mílum ef við gengjum í Evrópusambandið. Þetta liggur allt ljóst fyrir.

Þetta tal um skilyrði og hvað kæmi út úr samningum um aðild að Evrópusambandinu er því bara blekkingar. Kannski er það sjálfsblekking. En sjálfsblekking er ekkert betri en aðrar blekkingar að því leyti að um er að ræða blekkingu.

Ég ber hins vegar fulla virðingu fyrir þeirri skoðun að segja að Íslendingar eigi heima í þessu samfélagi og við eigum þá að fórna yfirráðum yfir okkar málefnum til að fá að taka þátt í þeirri þróun allri. En að færa hana í lýðræðislegan búning finnst mér óskaplega vafasamt.

Ef við lítum til 20. aldar sögu þá hafa einkenni alþjóðasamstarfs verið fyrst og fremst samstarf þjóðríkja, samstarf á milli þjóðríkja. Þau hafa sameinast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þeirra stofnana sem þar er að finna. Við höfum komið að samstarfi um umhverfismál, ég vísa í Kyoto, um heilbrigðismál. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er dæmi þar um og taka má mörg fleiri.

Ein slík stofnun er Alþjóðaviðskiptastofnunin sem hefur í seinni tíð verið að semja um sitthvað sem lýtur að landbúnaðarmálum að ógleymdum GATS-samningunum, General Agreement on Trade in Services, núna sem skipta okkur miklu máli. Hvernig ber Evrópusambandið sig að í þessum samningum? Gera menn sér grein fyrir því, þeir sem tala um lýðræðið þar á bæ? Þar er það framkvæmdanefndin sem fer með samninga fyrir hvert einasta ríki sambandsins og þjóðþingin hafa ekkert þar um að segja. Þau hafa afsalað sér samningsumboði í hendur framkvæmdanefndarinnar sem síðan hefur farið með þetta sem mannsmorð, hefur ekki viljað upplýsa um hvaða kröfur nefndin er að reisa á hendur viðskiptaaðilum Evrópusambandsins. Þetta er nú lýðræðið. Það þurfti rannsóknarblaðamann í Bretlandi til að hafa það upp úr Evrópusambandinu að framkvæmdanefndin væri búin að stilla þeirri kröfu upp gagnvart viðskiptaaðilum sínum, t.d. Kanada, að einkavæða vatnið, að Evrópusambandsríkin fengju aðild að vatninu, vatnsveitum í Kanada ef Evrópusambandið --- þá var þetta hluti af viðskiptaleik stórum --- færi að hleypa inn kanadísku korni, gæfi eitthvað eftir í landbúnaðarmálum. Þarna var framkvæmdanefndin ein að semja. Þetta er lokaður klúbbur. Hvers vegna ættu Íslendingar að afsala sér valdi yfir eigin málefnum til þess að fara inn í þennan klúbb? Ég spyr.

Eru ekki einhverjir sem sakna --- ekki erum við ein um að sakna raddar Olofs Palmes, Svíanna á dögum Víetnamstríðsins? Ég tek það sem dæmi. Hvers vegna kemur mér þetta í huga? Jú, vegna þess að við inngöngu í Evrópusambandið og mjög svo ákveðið eftir að ný stjórnarskrá er orðin að veruleika --- að vísu er enn tekist á um drögin --- þá er það svo að Evrópusambandið talar einni röddu í utanríkismálum. Það er bara ein rödd. Vilja Íslendingar þetta? Viljum við þetta? Hvers vegna ættum við að afsala okkur valdi yfir eigin málefnum á þennan hátt? Halda menn að heimurinn verði betri fyrir vikið?

Ég veit að margir hrífast af Evrópudraumnum vegna þess að þar er komið mótvægi við stórveldið Bandaríkin. Ég tel að ekki eigi að mæta stórveldishugsjónum og yfirráðastefnu Bandaríkjamanna á þennan hátt, með valdi. Ég held að það eigi að gera það á annan hátt. Kannski í ætt við það sem Olof Palme gerði á sínum tíma, kannski í ætt við það.

Mér fannst dapurlegt þegar ég kom til Sameinuðu þjóðanna sem þingmaður fyrir fáeinum árum að kynna mér stöðuna þar og starfsemina, að sjá sænsku fulltrúana fara með Evrópusambandsríkjunum inn í klúbbherbergi sín til að ákveða hvað menn ættu að segja. Mér fannst það dapurlegt.

Mér finnst sú þróun þess vegna allt annað en lýðræðisleg. Þegar við metum árangurinn af hinum evrópska efnahagssamruna er að mörgu að hyggja, m.a. að lýðræðinu. Að mörgu leyti hefur verið þrengt að Íslendingum með Evrópusamrunanum. Það var á vettvangi Evrópusambandsins sem tekin var ákvörðun um t.d. einkavæðingu eða markaðsvæðingu símkerfanna, raforkunnar og nú er verið að véla um vatnið. Þetta er stórt miðstýrt apparat sem vinnur ekki með hagsmuni t.d. fámennra byggðarlaga í huga. Það gerir það ekki. Við verðum að skipuleggja raforkuna á sama hátt á Vestfjörðum og menn gera í Munchen vegna þess að miðstýringarvaldið er svo algert. Menn ganga lengra en gert er í Bandaríkjunum t.d. hvað þetta snertir. Menn ganga lengra að þessu leyti. Einstaka ríki og einstaka borgir jafnvel í Bandaríkjunum hafa sjálfdæmi um það hvernig þau skipuleggja sína raforku. Los Angeles slapp við Enron-skandalinn vegna þess að þar áttu menn raforkukerfin, gengu ekki eins langt og Kaliforníuríki gerði hvað það snerti.

Í Evrópusambandinu hins vegar verður að skipuleggja raforkuna út frá miðstýrðum ákvörðunum í Brussel. Þetta er staðreynd. Svona er þetta á öllum sviðum.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir afstöðu minni og okkar í þessum málum og frábið mér allan útúrsnúning um afstöðu okkar til Evrópusamstarfs. Við erum mjög ákveðið inni á því að efla samstarf í Evrópu og með Evrópuríkjum. Ég hef tekið þátt í samstarfi verkalýðsfélaga í Evrópu og geri það. Ég sit í stjórn evrópsku verkalýðshreyfingarinnar og tek heils hugar þátt í því starfi jafnt sem á víðari grunni. Verkalýðshreyfingin hefur náið samstarf á alþjóðavísu og að sjálfsögðu erum við Evrópusinnuð í þessu samhengi. Í því samhengi erum við að sjálfsögðu Evrópusinnuð á sama hátt og við erum alþjóðasinnuð. Við teljum hins vegar að Evrópusambandið þrengi sjóndeildarhringinn.

Þegar það síðan gerist að menn hætta að reiða sig á eigið frumkvæði og getu en fara að sérhæfa sig í evrópska sjóðakerfinu þá fer að halla undan fæti. Það sama gildir reyndar á öllum sviðum. Ef menn hætta t.d. að reiða sig á baráttu íslenskrar verkalýðshreyfingar, vissulega líka í samstarfi við alþjóðlega verkalýðshreyfingu, þá fer líka að halla undan fæti þar. Ég tel nefnilega að stór miðstýrð kerfi séu varasöm. (MÁ: Nema í verkalýðshreyfingunni.) Nei. ,,Nema í verkalýðshreyfingunni,`` segir hv. þm. Mörður Árnason. Ég er því eindregið fylgjandi að hún sé líka dreifðstýrð, að hún geti á nákvæmlega sama hátt og ríki koma saman ákveðið að grípa til aðgerða, þess vegna á heimsvísu, í umhverfismálum eða mannréttindamálum. En ég vil ekki hafa valdboð. Ég vil ekki valdstýrða miðstýringu. Gegn því er ég að mæla. Ég tel að Evrópusambandið sé að þróast í þá átt og hef verið að reyna að færa rök fyrir því hvernig stofnanaveldið er að breytast hjá Evrópusambandinu. Það er að verða miðstýrðara og það er að verða lokaðra. Síðan er það sjónarmið, eins og ég gat um áðan og eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði hér fyrir og horfði þá til þessara vankanta sem hann skilgreindi svo, að menn taki höndum saman um að reyna að breyta þessu.

Ég hef hins vegar efasemdir um að menn eigi að beina kröftum sínum í þessa átt. Menn eiga að hugsa víðar, ekki svona þröngt, ekki í þessa Evrópueinangrunarstefnu, heldur eiga menn að hafa helst allan heiminn undir.