Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:32:59 (5238)

2004-03-11 14:32:59# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir málefnalega og yfirgripsmikla ræðu. Ég er henni sammála um flestallt. Það eru ákveðnar áherslur, ákveðin bjartsýni sem ríkir í huga hennar hvað varðar stöðu og framtíð Norðurlandasamstarfsins sem ég get ekki tekið heils hugar undir en vildi þó gjarnan geta gert það. Ég orðaði það svo í morgun að reynsla mín a.m.k. á meðan ég var starfandi á þeim vettvangi var sú að hugur Evrópusambandsríkjanna innan Norðurlandanna, þ.e. Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur beindist í stórauknum mæli til Mið-Evrópu. Maður fann að stórkanónur í stjórnmálum þeirra landa voru í auknum mæli að festa sig í sessi á þeim vettvangi en í minna mæli á vettvangi Norðurlandaráðs. Guð láti gott á vita ef einhver breyting er að verða á þessu og ég vænti þess að hv. þm. kunni best skil á því og betur en ég.

Auðvitað eru ýmis vandamál sem átt hafa sér stað í þessu samhengi, m.a. þau gagnkvæmu réttindi sem Norðurlandasamstarfið hefur tryggt þegnum Norðurlandanna í gegnum tíðina. Ég minnist þess a.m.k. á síðari árum að það voru ákveðnir tæknilegir örðugleikar sem lutu að því að annars vegar var um hinn norræna rétt að ræða og síðan um annars konar rétt sem stundum var meiri og stundum minni er varðaði aðild EES að Evrópusambandinu og Tryggingastofnun og fleiri aðilar hér á landi áttu oft erfitt með að leysa úr þeim vandamálum og hvað þá þeir skjólstæðingar sem í hlut áttu. Vonandi og væntanlega hefur leyst úr flestum þeim málum, en það eru slíkir tæknilegir örðugleikar sem snerta líf og starf og möguleika, mannréttindi og réttindi fólks á Íslandi sem er um að tefla í því samhengi. Það ber því allt að sama brunni að þessi staða mun auðvitað aldrei verða skýr og augljós gagnvart notendum þjónustunnar fyrr en allir eru í sama bátnum.