Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:39:30 (5241)

2004-03-11 14:39:30# 130. lþ. 82.4 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. heilbr.- og trn. við frv. til laga um breytingu á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, með síðari breytingum, sem er 552. mál þingsins á þskj. 1087.

Með frv. eru lagðar til þær breytingar á lögunum að þau uppfylli kröfur stjórnarskrárinnar um gjaldtökuákvæði auk þess sem þar er lagt til að ráðherra verði veitt almenn reglugerðarheimild um nánari framkvæmd laganna. Við umfjöllun málsins með gestum sem komu frá ráðuneytinu á fund nefndarinnar kom fram og var almennt mat nefndarmanna og gesta að þörf væri orðin á því að endurskoða ákvæði laganna í heild. Að sögn gesta okkar úr heilbr.- og trn. kom jafnframt fram að undirbúningur að þeirri endurskoðun er hafin á þeim bæ.

Breytingin sem lögð er til í 1. gr. frv. á 1. mgr. 4. gr. laganna felur í raun í sér, eins og hún er orðuð, að Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra skuli aðeins annast þjónustu við sjónskerta sem sjúkratryggðir eru samkvæmt lögum um almannatryggingar. Það kom þó fram í umfjölluninni og við nánari skoðun að það var ekki ætlunin því að í 3. gr. frv. er gjaldtökuheimild annars vegar fyrir þá sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og hins vegar fyrir þá sem eru það ekki. Að mati nefndarinnar þarf því að breyta 1. gr. frv. þannig að ljóst sé að stöðinni sé einnig heimilt að annast þjónustu við aðra en þá sem sjúkratryggðir eru samkvæmt almannatryggingalögum. Þá taldi nefndin í meðförum sínum á frv. að reglugerðarheimildin sem lagt er til að ráðherra verði veitt í 4. gr. frv. væri of víðtæk og leggur því til að hún verði felld brott. Nefndin leggur jafnframt til að við endurskoðun laganna verði kannað hvaða reglugerðarheimilda er þörf og ákvæði sett inn í samræmi við það.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.

Undir nál. rita hv. nefndarmenn í heilbr.- og trn., auk þeirrar sem hér stendur, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Pétur H. Blöndal, Þuríður Backman, Sigríður Anna Þórðardóttir og Guðrún Ögmundsdóttir.