Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:58:23 (5244)

2004-03-11 14:58:23# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi því yfir að ég er samþykkur efni frv. í meginatriðum. Ég þakka einnig hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttir fyrir góða stjórn á fundunum og ítarlega yfirferð. Í framhaldi af því vil ég þó spyrja hana, vegna þess að ég hefði í raun viljað sjá vissar breytingar á frv. í umfjöllun um það, sérstaklega um þvingunarúrræðin. Samkvæmt frv. er það svo að ef einhver brýtur af sér þá fær hann áminningu. Næsta stig er lokun eða stöðvun rekstrar. Hefði ekki þurft að breyta þessu atriði almennt í umhverfislöggjöfinni og fara yfir löggjöfina í heild sinni, varðandi það að menn hafi einhverjar stjórnvaldssektir til að beita?

Ég er á því að það að fara út í að loka fyrirtækjum sé mjög drastísk aðgerð. Ég held að öllum væri greiði gerður með því að koma þar með vægara úrræði. Ég tel að í framhaldi af umræðunni í nefndinni þurfi að skoða umhverfislöggjöfina í heild sinni upp á það hvort ekki þurfi að finna vægari stjórnvaldsþvingunarúrræði til að ná fram markmiðum laganna.