Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:04:10 (5248)

2004-03-11 15:04:10# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Mörður Árnason:

Forseti. Frv. sem hér um ræðir er á ýmsan hátt merkilegt þingmál. Þar eru ýmis nýmæli sem hv. formaður umhvn. Sigríður Anna Þórðardóttir fór ágætlega yfir í framsöguræðu sinni. Þó má taka út úr þrjú þeirra, þ.e. hið skýra markmið, ólíkt fyrri lögum, um það að eftir mengunar\-óhapp skuli markmiðið vera það að færa umhverfið til fyrra horfs. Í öðru og þriðja lagi er það skilgreiningin á bráðamengun sem fyrirbrigði sem þarf að bregðast öðruvísi við en öðru mengunaróhappi og í tengslum við það skýr ábyrgð mengunarvalds sem tiltekin er í lögum með hinni nýju mengunarbótareglu sem ég hygg að sé nýmæli í íslenskri löggjöf og þeirri hlutlægu ábyrgð sem henni fylgir sem ég tel að sé kannski eitt merkasta nýmælið í frv. Um það er ekki full eining svo sem búast mátti við af þeim aðilum sem um það véluðu í umræðu og umsögnum þó nefndinni hafi tekist ágætlega að verða sammála um það mál.

Líka eru ýmis álitamál eða gallar við frv. enn þá sem upphaflega voru í því og standa að sumu leyti enn þá eftir ítarlega umfjöllun nefndarinnar. Hún getur að sumu leyti kannski ekki gert mikið í því. Kannski varðar einn helsti gallinn það sem ekki stendur í frv. fremur en það sem í því stendur, eins og stundum er. Eins og sagt hefur verið frá er það tillaga nefndarinnar að breyta um nafn á frv. sem áður hét frv. til laga um verndun hafs og stranda en héti eftir breytinguna frv. til laga um varnir gegn mengun hafs og stranda og lýsir því, eins og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði frá áðan, að ekki er í frv. fjallað um nema mengun hafs og stranda og þar með ekki um ýmislegt rask á umhverfi og lífríki, t.d. vegna dýpkunarframkvæmda, efnisnáms, hafnarframkvæmda, fyllinga, botnveiða með trolli og sköfu og kannski fleiri veiðarfærum, umferðar ferðamanna og vegna ágangs framandi tegunda í sjónum. Það bíður okkar ósköp einfaldlega, og er kannski meiningin á bak við tillöguna um nafnbreytinguna, að koma inn í þessi lög, ef frv. verður samþykkt, ákvæðum sem varða þetta efni. Það er sem sé eitt af verkefnum framtíðarinnar í íslenskri umhverfislöggjöf.

Annar galli er sá að kostnaður af frv. er óljós og liggur ekki fyrir. Að vísu hefur með venjulegum hætti verið gert ráð fyrir ákveðnum óverulegum kostnaði ríkisins af frv. En sá kostnaður sem við höfum rætt í nefndinni og höfum auðvitað áhyggjur af er annars vegar kostnaður fyrirtækja og hins vegar sveitarfélaga. Um þetta var mjög spurt í nefndinni og fundust engin svör þannig að hér verður reynslan ósköp einfaldlega að skera úr.

Þriðja álitamálið og gallinn, að ég vil segja, varðar kafla frv. um svæðisráðin. Fram komu af hálfu ýmissa nefndarmanna, þar á meðal þess sem hér stendur, þær skoðanir að þetta væri þunglamalegt fyrirkomulag og ákveðin ofstjórnun fælist í því að nánast skikka sveitarfélög sem e.t.v. vilja ekki taka þátt í svæðisráðum eða búa við þær aðstæður að þykja það óheppilegt, til þess að mynda slík samtök með nágrannasveitarfélögum. Þar að auki þótti okkur það óeðlilegt í samskiptum stjórnsýslustiganna að hið æðra, fyrra, þingið væri að skipa hinu, sveitarstjórnunum, að bindast slíkum samtökum. Að auki hefur ekki verið eining meðal umsagnaraðila um skipan þessara samtaka.

Á hitt er að líta, eins og fram kom í margtilvitnaðri framsöguræðu hv. formanns umhvn., Sigríðar A. Þórðardóttur, að af hálfu sveitarfélaganna var þessu ekki mótmælt þó ekki væri með nokkrum hætti knúið á um að þetta yrði gert. Að því voru fulltrúar þeirra spurðir og þeir fáruðust ekki yfir þeim kostnaði sem þau þurftu að bera vegna þessara svæðisráða þannig að sá sem hér stendur féll að lokum frá hugleiðingum sínum um að flytja brtt. um að fella þennan kafla frv. brott.

Um starf nefndarinnar vil ég segja að það hefur í þessu máli verið ákaflega gott. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir þá leiðsögn og það samstarf sem hún hefur séð um í þessu máli. Þetta þurfti mjög ítarlega meðferð og auðvitað gátu orðið ýmis slys á þeirri leið. En ég hygg að svo sé hennar forustu fyrir að þakka að hvorki varð langtímamengun né bráðamengun á þeirri leið.

Á hitt er að líta, og það kom mér á óvart sem nýliða við þingstörf, að miðað við að þetta er í þriðja sinn sem frv. er lagt fram þá var það af hálfu frumvarpsflytjanda eða a.m.k. frumvarpssemjanda nokkuð gallað. Það sést ágætlega af því að nefnd skipuð fulltrúum fjögurra ólíkra flokka og hinum fimmta í áheyrn varð sammála um að flytja við frv. breytingartillögur sem ganga vel á þriðju síðu. Það er undarlegt að ráðherra og starfsmenn hans í ráðuneyti skulu senda frá sér frv. sem þingið þarf að breyta svo mjög. Það verður að taka fram að flestar þessar breytingar eru ekki pólitískar breytingar heldur efnistæknilegar, lagatæknilegar eða orðalagstæknilegar svo ég tvinni saman nokkur nýyrði.

Eins og ég sagði áðan um svæðisráðin varð það niðurstaða mín og annarra efasemdarmanna að láta þann kafla frv. eiga sig í tillöguflutningi. Hins vegar náðist ekki samstaða um það í nefndinni að bæta skipan þeirra og er það hið eina sem út af stendur í þessu góða starfi. Við, auk mín hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Jón Kr. Óskarsson og Atli Gíslason, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, flytjum því brtt. um að bætt verði við einum svæðisráðsmanni með breytingu á 13. gr. og þangað fari inn maður, þ.e. að auk þess sem atvinnurekendur á svæðinu tilnefna þá komi inn fulltrúi umhverfis- eða náttúruverndarsamtaka. Fyrir því eru í raun mjög svipuð rök og fyrir fulltrúa atvinnurekenda. Bæði er þar um að ræða reynslu og þekkingu sem kæmi inn í þetta svæðisráð og er ekki endilega til fyrir hjá þeim fulltrúum sem þar sitja. Hins vegar væri þarna tryggð bein aðkoma af hálfu almennings, einkum þess hluta almennings sem lætur sig þessi mál varða miklu. Með þeim fulltrúa sem inn kæmi mynduðust líka tengsl við hreyfingu í héraðinu og raunar alls staðar um landið sem lætur sig þessi mál varða og hefur á að skipa sjálfboðaliðum og vinnufúsum höndum sem stundum kann að þurfa að kalla til þegar um bráðamengun er að ræða.

Orðalag tillögunnar er af ásettu ráði haft rúmt þannig að þessi fulltrúi geti verið frá umhverfis- eða náttúruverndarsamtökum sem skipulögð eru á svæðinu. Svo er að vísu ekki alltaf og væri þá hægt að leita til samskonar félaga á svæðinu, ferðafélaga, átthagafélaga o.s.frv. sem geta með nokkrum hætti talist vera umhverfissamtök. Fulltrúans væri líka hægt að leita hjá landshlutasamtökum, og þá auðvitað manns sem búsettur væri á því svæði sem um ræðir, eða landssamtökum eftir atvikum.

Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til formanns nefndarinnar og annarra nefndarmanna fyrir einstaklega gott samstarf í þessu máli sem ég hygg, þrátt fyrir að þingreynsla mín sé ekki mikil, að sé til fyrirmyndar við málatilbúnað af þessu tagi.

Forseti. Klukkan hefur hagað sér mjög undarlega í þessari ræðu minni.

(Forseti (BÁ): Forseti mun láta athuga klukkuna. Ég hygg að hún hafi talið upp en ekki niður vegna þess að ræðutími í þessari umræðu er ótakmarkaður.)