Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:36:39 (5255)

2004-03-11 15:36:39# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist sem sagt, eins og hv. þm. Mörður Árnason benti á áðan, að ýmislegt sé frekar loðið í frv. enn þá og kannski sérstaklega hvað varðar kostnaðarþáttinn. Ég vona að ég hafi það rétt eftir hv. þm.

Mér finnst að þetta ætti að liggja betur fyrir því að eins og hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir benti á er frekar umdeilt að sökkva skipum. Það er líka frekar umdeilt að gera það ekki. Þekki ég Íslendinga rétt munu þeir geta rifist nánast endalaust um hvað eigi að gera við þessi flök ef við tökum ekki ákvörðun um það hið snarasta að sökkva þeim til botns á völdum stöðum. Eyðum tímanum og orkunni í að karpa um hvernig í ósköpunum eigi að fara að því að losna við þau eftir næstu áramót þegar OSPAR-samningurinn tekur fullt gildi um bann við því að varpa skipum í hafið eins og sagt er svo skemmtilega.