Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:52:06 (5261)

2004-03-11 15:52:06# 130. lþ. 82.7 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um afnám flutningsjöfnunar á sement. Það er framhald umræðu frá því fyrr í vikunni þar sem mikið var rætt um flutningsjöfnun almennt út á landsbyggðina og mig langar að fara nokkrum orðum um þetta mál og mál er varða hliðstæða þætti.

Sementsflutningsjöfnun hefur verið í nokkra áratugi og hefur fyrst og fremst verið vegna þess að framleiðslan í landinu hefur verið á einum stað, þ.e. á Akranesi. Nú var gefinn frjáls innflutningur á því fyrir nokkru þannig að sement er flutt með skipum erlendis frá til landsins og þá gefast auðvitað möguleikar á að flytja sementið inn til fleiri hafna. Helguvíkurhöfn á Reykjanesi hefur fyrst og fremst verið innflutningshöfn á erlendu sementi auk þeirra hafna á Austurlandi sem munu fóðra þær miklu framkvæmdir sem eru á Héraði og í Reyðarfirði.

Við þekkjum álíka breytingu í löggjöf hjá okkur. Þar má minna á flutningsjöfnun sem var á áburði miðað við svipaðar aðstæður og hafa verið og eru á sementsflutningum. Þá var ein verksmiðja sem var í Gufunesi og þar var flutningsjöfnun út á land, og rétt eins og með sementið voru það notendurnir sem notuðu mesta áburðinn, sem voru bændur á Suðurlandi, sem borguðu mest í flutningsjöfnunina en áttu jafnframt lengstan landveg að sækja sinn áburð.

Eins og við þekkjum var áburðarinnflutningur gefinn frjáls fyrir nokkrum árum og þá breyttust þessir hlutir. Þá komu nýjar hafnir. Til að mynda var farið að skipa upp áburði í Þorlákshöfn sem var næststærst á markaðssvæðinu. Það hafði aldrei verið gert áður og þannig megum við búast við að flutningastrúktúrinn, bæði með innlenda sementið og hið innflutta, breytist. Vonandi mun hann að einhverju leyti breytast á þann hátt að við notum sjóflutningana meira og minnkum þar af leiðandi vegslit sem var nokkuð í umræðunni um daginn varðandi þetta mál og það væri farsælt ef svo gæti orðið.

Að sjálfsögðu tekur umræðan svolítið mið af flutningsjöfnun og flutningi út á landsbyggðina. Við það er að bæta að þrátt fyrir að þessi flutningsjöfnun hafi átt sér stað til hinna ýmsu landshluta þá eru þar staðsettar stöðvar sem framleiða steypu og þær keyra steypuna um langan veg, allt frá kannski 50 og upp í 150 km og í þeim tilfellum er ekki verið að jafna neinn flutningskostnað. Það má því segja rétt eins og með áburðarjöfnunina að þetta sé orðið fyrirbrigði sem heyrir tímanum til.

Herra forseti. Fyrst ég nefni Áburðarverksmiðjuna þá er munurinn sá að hún var byggð fyrir Marshall-hjálp og þegar verksmiðjan var seld féllu eignir hennar til ríkisins og þannig var með Sementsverksmiðjuna þegar hún var seld. En þar sem við höfum verið að ræða svolítið um fleiri þætti í jöfnun búsetu á Íslandi má nefna að á sínum tíma, um leið og við fengum hjálp til að byggja Áburðarverksmiðjuna, fengum við Marshall-hjálp til að byggja Sogsvirkjanir og þeir fjármunir sem við fengum til að byggja þær hafa fallið sem eignarhluti Reykjavíkurborgar og það væri í sjálfu sér fróðlegt að vita hvers virði sú Marshall-hjálp er á þeim hluta Landsvirkjunar sem er eignarhluti Reykjavíkurborgar.

Ég held, herra forseti, að við eigum að horfa heildstætt á þessa flutningsjöfnun og við höfum einmitt rætt og munum taka fyrir frv. er varðar jöfnun flutningskostnaðar á rafmagni sem kemur auðvitað með öðrum hætti inn í byggðastefnu okkar en flutningsjöfnun á sementi. Að lokum vil ég segja að ég er samþykkur því að frv. verði samþykkt á Alþingi.