Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:57:28 (5262)

2004-03-11 15:57:28# 130. lþ. 82.7 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem frv. hefur fengið en auðvitað eru þær svona beggja blands eins og gengur. Ég tel að þarna sé ekki um stórkostlega breytingu að ræða þó svo að þessi jöfnun verði aflögð þar sem hún er svo lítill hluti af byggingarkostnaði í landinu. Með þessu móti er líka verið að gera upp á milli byggingaraðferða sem alla vega orkar tvímælis. Þar að auki kostar nokkuð að halda þessu kerfi úti og ég held að ekki sé hægt að neita því að auk þess er það nokkuð flutningshvetjandi. Svo er það aftur annað mál hvort ástæða er til að taka upp styrki vegna flutningskostnaðar almennt og ég vil gera greinarmun þar á vegna þess að annars vegar erum við að tala um jöfnun, þ.e. í sementinu, sem nú verður afnumin ef frv. verður að lögum, og hins vegar eru uppi hugmyndir um ákveðna styrki til þeirra fyrirtækja sem geta sýnt fram á mikinn kostnað vegna flutnings á vöru á markað þannig að þetta er ekki alveg sambærilegt, og það er það mál sem er til athugunar hjá stjórnvöldum og hjá Eftirlitsstofnun EFTA eins og er.

En ég vonast til þess að frv. fái greiðan gang í gegnum hv. Alþingi því að ég tel að þetta fyrirkomulag sé barn síns tíma og eigi í raun ekki rétt á sér lengur þó að því sé ekki að neita að það var sett á laggirnar með því hugarfari að lækka byggingarkostnað á landsbyggðinni. Engu að síður er það niðurstaða þeirrar nefndar sem fjallaði um málið og eins iðnn. fyrir nokkrum árum, sem lét það koma fram í nefndaráliti sínu í tengslum við annað mál sem þá var til umfjöllunar, að þetta kerfi þyrfti skoðunar við og niðurstaðan varð sú að leggja til að það yrði aflagt.