Stytting þjóðvegar eitt

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:20:35 (5270)

2004-03-11 16:20:35# 130. lþ. 82.8 fundur 553. mál: #A stytting þjóðvegar eitt# þál., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og get ekki heyrt annað en að menn séu á því að þetta sé vinna sem þurfi að fara í ef við eigum að geta tekið afstöðu til mála. Vissulega eru jarðgöng hluti af vegakerfinu og auðvitað þarf einnig að huga að þeim. Við þurfum líka að sjá hverju framkvæmdirnar skila í heild þjóðhagslega. Þar er ekki svo lítið upp úr að leggja hvað varðar umferðaröryggi því það er stór þáttur og ákaflega dýrt að vera með vegi sem eru miklir slysavegir eða með marga svarta bletti.

Þetta er því stórmál og ég get ekki ímyndað mér annað en að þingmenn muni styðja að farið verði í að gera úttekt á málinu því það ætti að koma þeim sérstaklega til góða í þeirri vinnu sem þeir þurfa að inna af hendi í vegáætlun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en bara þakka hana og vonast til þess að málið komi aftur í þingið.